Smá ferðasaga mótorhjólaáhugamanns - Áskorandi Guðmundur Paul Scheel Jónsson Blönduósi

Það var fyrir tveimur árum að það skaut upp í huga mér að líklegast myndi alvöru mótorhjól henta mér betur en rafskutlan sem ég keypti ári áður. Rafskutlan er ekki gerð fyrir meiri þunga en 120 kg og mældist ég langt þar fyrir ofan og þar sem ég á ekki bíl og hef lítinn áhuga á slíku farartæki bættist þyngd innkaupa við yfirþyngdina sem hjólinu var ætlað að bera.

Ég hef allatíð verið maður skjótra ákvarðana og var búinn að kaupa mér Honda Shadow mótorhjól 750 cc áður en mánuður var liðinn frá ákvörðunartöku og það án þess að skoða hjólið, en það hafði ég alltaf gert með þá bíla sem ég hef átt enda hef ég ekkert vit á slíkum tækjum og því ástæðulaust að skoða þau áður.

Nú hafði framtíðin hjá mér breyst, nýr lífstíll og aðeins tvö ár í sjötugt og hafði aldrei áður keyrt eða setið slíkt tæki. Næsta vor var svo hafist handa með hléum og próf tekið í nóvember 2019 með óaðfinnanlegum akstri um öngstræti Sauðárkróks, loksins gat ég farið á hjólið mitt með próf upp á vasann og ný framtíðarplön.

Ég tók strax ákvörðun að hliðarvindar íslenskra hola og þvottabretta væri ekki framtíðarplanið mitt á þessum ævintýraferðum mínum svo ég keypti mér ferð með Norrænu aðra leiðina, ákveðinn í því að fagna starfslokum og jafnframt 70 ára afmælinu á ferð um alvöru vegakerfi og öllum afkomendum boðið að fagna með mér í borginni fögru þar sem móðir mín heitin fæddist og ólst upp í hörmungum stríðsins og eymd eftirstríðsáranna uns hún flutti 21 árs til Íslands.

Borgin sem hefur allatíð heillað mig og ég hef heimsótt oftar en ég hef tölu á útnefndi Karl IV keisari hana „Glories of the Roman Empire“ einu borgina utan Ítalíu, hinar fjórar voru Feneyjar, Róm, Pisa og Flórens, og það ekki að ástæðulausu.

Þegar leið að brottfarardegi ákvað ég að fara leiðina á Seyðisfjörð á tveimur dögum en skipti svo um skoðun því mig vantaði æfingu í langakstri og því var ákveðið að fara í einum „rykk“ alla leið á Seyðisfjörð sem var minna mál en ég hélt að það yrði og eftir sex klukkutíma leið var ég kominn á Egilsstaði og gisti þar og fór svo árla morguns á Seyðisfjörð.

Um borð var okkur kúrekum þjóðveganna ætlað að festa hjólin okkar við mjög þröngar aðstæður og þá kynntist ég fyrst „bræðralagi“ mótorhjólamanna sem tóku að sér að festa hjólið tryggilega, hafa sjálfsagt vorkennt gamla kallinum sem kunni ekki með slík bönd að fara, og þegar komið var til Hirtshals var búið að gera það klárt.

Fyrsti áfangi ferðarinnar var að baki og framundan akstur um vegi sem þar sem vindurinn var bara í fangið og stefnt á heimsókn til bróður míns sem búsettur er í Danmörku, Covid hafði nú sett mark sitt á ferðina og hafði sendiráðið upplýst mig að ég mætti hvergi stöðva innan ríkismarka Þórhildar drottningar, auðvitað hunsaði ég það og átti svo sem ekki von á eftirköstum, sem ekki kom til.

Næsti áfangi var svo sjálft móðurlandið. Ég hafði tekið þá ákvörðun að fara frekar hliðarvegi bæði vegna þess að ég hafði ekki farið um þau svæði á Eystrasaltsströndinni og líka vildi ég ekki vera í langri röð flutningabíla þar sem ég hafði ekki farið hraðar en 120 og hafði reyndar ekki áhuga á hraðakstri. Það átti eftir að koma mér í koll því bæði villtist ég þrátt fyrir GPS og einnig að líklega hefði ég ekki runnið til í beygju á rennblautum og hálum veginum þar sem reynsluleysið mitt varð til þess að ég bremsaði á framhjólinu í beygjunni. En sem betur fer fór ekki illa og með hjálp var hjólinu komið upp aftur og ferðalagið hélt áfram.

Eftir sex tíma akstur var ég kominn á hótelið „mitt“ en þar hef ég alltaf gist sl. tíu skipti, og alltaf sama herbergið. Frábært hótel þar sem ég er orðinn einn af fjölskyldunni og ekki skemmir að herbergi með ríflegum morgunverði er á 35 evrur.

Í ferðasögunni er aðeins stiklað á stóru, ekki minnst á afmælið sem fór forgörðum vegna ferðatakmarkanna, ekki minnst á að heimferðin breyttist með 3ja tíma fyrirvara þar sem ég þurfti að taka lest til Kaupmannahafnar og fljúga þaðan í stað þess að fljúga frá Hamborg. Nú býður mótorhjólið eftir mér í Lübeck að ég komi að vori og þá alkominn ef Guð lofar.

Ég skora á Gunnar S. Sigurðsson, smið á Blönduósi, að taka við pennanum.

Áður birst í 46. tbl.  Feykis 2020.

 

2020

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir