Snjólaug kjörin skotmaður ársins hjá Markviss
Félagar Skotfélagsins Markviss á Blönduósi eru 75 talsins, þeim hefur farið fjölgandi og sífellt fleiri mæta á æfingar, samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu. „Sem dæmi má taka að árið 2013 voru skotnar um 9000 leirdúfur á svæðinu á móti tæpum 13.000 það sem af er árinu 2014.“
Samkvæmt fréttatilkynningunni er þetta í samræmi við þá þróun sem verið hefur á öðrum skotsvæðum hérlendis, „enda nýtur skotfimi sívaxandi vinsælda eins og tölur frá Íþrótta og Ólympíusambandi Íslands staðfesta. Fjöldi iðkenda skotíþrótta á landsvísu hefur hátt í tvöfaldast frá árinu 2008 og er nú nálægt 4000 manns,“ segir í tilkynningunni.
Líkt og undanfarin ár átti skotfélagið Markviss keppendur á flestum mótum sumarsins, eða alls 31 skráðan keppanda á 11 mótum. Aðeins eitt mót var haldið af skotf.Markviss sumarið 2014 en á næsta ári verða haldin fjögur mót í haglagreinum á Blönduósi, þ.e. Landsmót 50+, Landsmót STÍ, Norðurlandsmeistaramót og kvennamótið Skyttan.
„Unnið hefur verið að endurbótum á skotsvæði félagsins og mun allt kapp verða lagt á að ljúka næsta áfanga í því verki fyrir landsmót UMFÍ 50+ sem fram fer í júní á næsta ári. Í sumar var komið upp salernisaðstöðu og unnið við undirbúning fyrir þökulagningu á skotvellinum, sem farið verður í næsta vor. Önnur verkefni sem unnið er að eru t.d. aðstaða fyrir kúlugreinar og bogfimi, endurbætur á húsakosti félagsins,lagfæringar á vegi að svæðinu, gróðursetning skjólbelta umhverfis svæðið o.fl.,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Á stjórnarfundi Skotfélagsins Markviss þann 17. október síðastliðinn var kosinn skotmaður félagsins 2014. Titilinn hreppti formaður félagsins Snjólaug María Jónsdóttir, og er þetta annað árið í röð sem Snjólaug verður fyrir valinu.
Árangur hennar á nýliðnu tímabili var eftirfarandi.
- Sigur í kv flokki á landsmóti STÍ, Rvk. 17 maí.
- 4. sæti i kv flokk á landsmóti STÍ,Þorlákshöfn. 31 maí.
- Sigur í kv flokk á landsmóti STÍ og jöfnum á Íslandsmeti, Blönduós. 14 júní.
- 11. sæti í B úrslitum SIH-Open, Alþjóðlegt mót í Hafnarfirði. 5-6 júlí.
- 3 sæti í kv flokk á Íslandsmóti STÍ. Rvk. 19 júlí.
- Sigur í kv flokk Landsmót STÍ og jöfnun á Íslandmeti, Akureyri. 26 júlí.
- Sigur í kv flokk Landsmót STÍ og nýtt Íslandsmet, Húsavík. 9 ágúst.
- Sigur í kv flokk Bikarmót STÍ og jöfnun á Íslandsmeti,Akureyri,6 sept. Varð Bikarmeistari kvenna með fullt hús stiga annað árið í röð.
- Sigur á Kvennamótinu SKYTTAN. Rvk. 20 sept.
- Valin í úrtakshóp Skotíþróttasambands Íslands fyrir Smáþjóðaleikana 2015.