Snjólaug María valin í úrtakshóp

Snjólaug María Jónsdóttir, skotkona úr Skotfélaginu Markviss, hefur verið valin í úrtakshóp Skotíþróttasambands Íslands fyrir Smáþjóðaleikanna sem haldnir verða í Reykjavík 1.- 6. júní á næsta ári. Greint var frá þessu á Huni.is í gær.

Alls eru sex konur og sex karlar í úrtakinu og munu þau keppa sín á milli á tveim mótum næsta vor um það hvaða tveir karlar og tvær konur keppa fyrir Íslands hönd á leikunum.

Snjólaug keppti á sjö mótum skotíþróttasambandsins í sumar og vann fimm þeirra, jafnaði íslandsmet kvenna þrívegis og bætti það einu sinni. Þá varð hún bikarmeistari með fullt hús stiga annað árið í röð.

Úrtökumót verða haldin að vori 2015 þar sem úr því fæst skorið hverjir keppa fyrir hönd Íslands á mótinu.

Fleiri fréttir