Sögu lands og þjóðar gerð góð skil í Miðgarði

Það var góð stemning í Menningarhúsinu Miðgarði sl. laugardagskvöld er þess var minnst í tali og tónum að öld var liðin frá því að Ísland fékk fullveldi frá Danakonungi. Stóru kórarnir í Skagafirði, karlakórinn Heimir og kvennakórinn Sóldís, léku þar stærstu hlutverk með söng en á milli laga var stiklað á stóru með áherslu á Ísland í heimssögunni og þá sérstaklega þar sem Skagfirðingar komu við sögu.
Vel var mætt í menningarhús Skagfirðinga og almenn ánægja með dagskrána. Eftir að Lydía Einarsdóttir hafði sett dagskrána steig Agnar Gunnarsson, einn skipuleggjenda og höfunda viðburðarins, á svið og spjallaði létt við áhorfendur um verkið sem bar nafnið „Hver á sér fegra föðurland“. Í kjölfarið var slegið í og hóf Karlakórinn Heimir upp raust sína og söng Skín við sólu Skagafjörður Kórinn stóð á sviðinu fyrri hluta skemmtunarinnar og söng af sinni alkunnu snilld og hver þulurinn af fætur öðrum kom fram og rifjaði upp atvik gamalla tíða. Eftir hlé sté kvennakórinn Sóldís á svið og hélt stemningunni vel uppi allt fram að lokum er kórarnir tveir sameinuðust á sviðinu og sungu tvö lög og slógu þar með botninn í vel heppnaða dagskrá. Án þess að fara nánar út í frammistöðu kóranna í einstaka lögum er vert að minnast á lokalagið, Ó, guð vors lands, en það var sannarlega vel flutt og gaman að verða vitni að flutningi þess á þessum merka degi.
Fleiri myndir frá kvöldinu má sjá á Facebook-síðu Heimis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.