Sögukvöld og súpa á Sólgörðum

Sögukvöld verður haldið á Sólgörðum í Fljótum annað kvöld, föstudaginn 11. janúar, klukkkan 20:00. Verður það haldið í kaffihúsi Guðrúnar frá Lundi og geta gestir gætt sér á heimalagaðri súpu og brauði meðan Kristín S. Einarsdóttir, svæðisleiðsögumaður og rekstaraðili Söguskjóðunnar segir frá 19. aldar Fljótamanninum Myllu-Kobba. Segir Kristín að hugmyndin sé að slík kvöld verði haldin af og til í vetur og jafnvel fram á sumarið ef viðbrögð gefa tilefni til þess. 

„Það er svo sem ekkert nýtt að ég segi sögur hverjum sem heyra vill,” segir Kristín aðspurð um tilurð sögukvöldanna. „Sem leiðsögumaður og áhugamanneskja um sögu og þjóðhætti hef ég viðað að mér heilmiklu efni, ekki síst héðan úr Skagafirði, og langar að miðla því ef fleiri kynnu að hafa áhuga. Hingað til hef ég einkum gert það í formi leiðsagnar með ferðamenn, íslenska sem erlenda, en þar sem við höfum Sólgarða til umráða, að minnsta kosti fram á næsta haust, þótti okkur hjónum tilvalið að reyna að standa fyrir einverjum viðburðum þar. Saga og menning eru mér hugleikin viðfangsefni og mér finnst æskilegt að húsnæði fyrrum Sólgarðaskóla fái áfram að gegna einhvers konar hlutverki í menningar- og félagslífi samfélagsins.”

Kristín segir að hugmyndin að slíkum sögukvöldum sé í raun bæði gömul og ný. „Meðan ég var búsett á Hólmavík tók ég stundum þátt í þjóðsagnaverkefnum með leikfélaginu þar. Einnig stóð kvenfélagið Framtíðin á dögunum fyrir Fullveldishátíð í Fljótum þar sem ég tók að mér að taka saman efni um Fljótin fyrir 100 árum. Einnig hef ég oft tekið á móti hópum eða farið á ýmsar uppákomur og sagt frá, einkum Guðrúnu frá Lundi, sem er enn þekktari Fljótamaður en Myllu-Kobbi. Það eru svo fleiri Fljótamenn og Skagfirðingar, sem og sögulegir viðburðir, sem ég á reyndar eftir að velja úr, sem bíða sömu meðferðar. Í næsta mánuði verða t.d. liðin hundrað ár frá því að Samvinnufélag Fljótamanna var stofnað. Einnig væri gaman að fá fleiri til að segja frá og kannski um að gera að nota tækifærið og auglýsa eftir áhugasömum sagnamönnum og konum.” 

En hver var svo þessi Myllu-Kobbi sem Kristín ætlar að segja frá á fyrsta sögukvöldinu? Kristín segir hann hafa verið nokkurs konar förumann sem ferðaðist um sveitir og smíðaði myllur og legsteina en hafði þó heimilisfesti í Fljótum. Einnig gekk hann, ásamt Rönku systur sinni, í ýmis verk fyrir bændur. Kobbi þótti allsérkennilegur í háttum og útliti og af honum hafa spunnist margar sögur, sumar reyndar all ólíkindalegar. „Þegar ég fór að grúska í heimildum komst ég það því að hróður hans hefur borist allvíða og hugsanlega er hann með landsþekktari Fljótamönnum fyrr og síðar,” segir Kristín.

Allir eru sem endranær hjartanlega velkomnir að Sólgörðum. „Þar erum við hjónin með fjölbreytta starfsemi og okkur hefur alltaf fundist óskaplega gaman að taka á móti gestum. Við reynum að hafa hina gömlu íslensku gestrisni í hávegum og skapa heimilislega stemmingu,” segir Kristín að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir