Sögur úr Skagafirði í Kakalaskála á laugardaginn

Laugardaginn 6. september, kl. 14, verður haldið Kakalaþing í Kakalaskála í Blönduhlíð. Yfirskrift þingsins að þessu sinni er: Sögur úr Skagafirði. Fjallað verður um dagbækur Sveins Pálssonar landlæknis, ævisögu Bíbíar í Berlín, dulsmál í Borgargerði og Ólafs sögu Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal.
Fyrsta Kakalaþingið var haldið árið 2013 í samvinnu við félagið Á Sturlungaslóð og Árnastofnun. Frá 2015 hafa María Guðmundsdóttir, Sigurður Hansen, Guðrún Ingólfsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson hins vegar séð um skipulagningu þinganna.
Efnisskráin hefur verið fjölbreytt, fjallað hefur verið um konur og karla í Sturlunga sögu, Jón Arason biskup og Helgu Sigurðardóttur fylgikonu hans, Konráð Gíslason, málfar í handritum, menningararfinn, náttúruna, svo fátt eitt sé nefnt.
Hér að neðan má sjá um hvað verður fjallað á Kakalaþingi nk. laugardag.
Oddný Jónsdóttir í Borgargerði (1745-1776)
Þar verður sagt frá Skagfirðingum fyrr og nú sem komu við sögu þjóðarinnar og létu eftir sig merkar heimildir þótt sannarlega væri láni þeirra afar misskipt. Þannig segir Guðný Hallgrímsdóttur sagfræðingur frá Oddnýju Jónsdóttur, vinnukonu í Borgargerði, sem árið 1769 var ákærð fyrir að hafa fætt barn á laun og var dæmd til dauða. Hún beið hins vegar í sex ár eftir úrskurði um hvort dauðadóminum yrði fullnægt eða ekki og var meira og minna í varðhaldi allan tímann.
Eiríkur Laxdal (1743-1816)
Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum við HÍ, fjallar um sögu Eiríks Laxdal, sem uppi var í kringum 1800 og kenndi sig við Laxárdal á Skaga. Hann var stúdent úr Hólaskóla, prestsonur frá Hvammi í Laxárdal sem sigldi til Kaupmannahafnar í nám en lenti í vandræðum og endaði í danska hernum, sem í raun var einskonar skuldafangelsi. Hann kom svo aftur heim og stundaði útróðra á Skaga og reyndi að búa en flosnaði upp í harðindaárunum upp úr 1800 og var alla ævi á flakki upp frá því. Hann var gríðarlega afkastamikill rithöfundur, höfundur margra rímna og tveggja sagna sem teljast nú ein athyglisverðustu verk íslenskrar bókmenntasögu.
Sveinn Pálsson (1762-1840)
Kristján Bjarki Jónasson bókmenntafræðingur fjallar um dagbækur Sveins Pálssonar náttúrufræðings og læknis. Sveinn var fæddur og uppalinn á Steinsstöðum í Lýtingsstaðahreppi og gekk í Hólaskóla en varð síðar helsti frumkvöðull Íslendinga í náttúrurannsóknum og þjóðkunnur sem læknir og kempa. Vorið 2026 kemur út heildarútgáfa verka hans sem Lilja Pálmadóttir á Hofi stendur fyrir, en hún er afkomandi Sveins. Kristján segir frá útgáfunni og því mikla starfi sem unnið hefur verið í tengslum við útgáfuna, ekki síst frágang á dagbókum Sveins sem telja um 1500 blaðsíður og koma út í þremur bindum. Í dagbókunum segir Sveinn frá daglegu lífi í Lýdó og í Hjaltadal frá 1779 og fram til þess að hann fer suður að læra til læknis haustið 1783. Þarna er að finna fyrstu skrásettu fréttir af hvarfi Reynistaðabræðra, nákvæmar tölur um heyfeng í Tungusveit um 1780, lýsingar á ferðum Sveins til að ná í skreið á Suðurnesjum á sumrin og ferðaleiðum vermanna á útmánuðum og svo mætti lengi telja. Ótrúlega magnaður gluggi að daglegu lífi á 18. öld.
Bíbí – Bjargey Kristjánsdóttir (1927–1999)
Sigurður Gylfi Magnússon prófessor í sagnfræði fjallar um sjálfsævisögu Bíbíar í Berlín sem kom út fyrir skemmstu. Bíbí hét fullu nafni Bjargey Kristjánsdóttir (1927–1999) og jafnan var kennd við kotbæ foreldra sinna, Berlín, á Höfðaströnd, rétt utan við Hofsós. Hún þótti bráðgert barn en veiktist á fyrsta ári og var síðar merkt sem ,,fáviti“ af fölskyldu sinni og sveitungum. Bíbí var höfð sem hornreka á heimilinu framan af og var falin fyrir gestum og gangandi. Sjálfsævisaga hennar ber þó vott um góða greind og innsæi í líf sitt og aðstæður og er afar umfangsmikil en hún telur alls 120 þúsund orð. Bíbí skrifaði sjálfsævisögu sína í einrúmi, hélt henni leyndri fyrir fjölskyldu sinni og samferðafólki og fáir vissu af tilvist hennar.