Starfshópur skipaður um uppbyggingu á fjölnota íþróttahúsi

Íþrótta- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar samþykkti á fundi sínum í dag tillögu um skipun starfshóps, innan Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem komi með tillögu að uppbyggingu vetraríþróttaaðstöðu á Sauðárkróki. Starfshópurinn skal koma með tillögu til félags- og tómstundanefndar um staðsetningu og gerð mannvirkisins. Stefnt skal að því að tillögur liggi fyrir í febrúar.

Í fundargerð segir að samkvæmt tillögunni skuli í starfshópnum sitja: Formaður félags- og tómstundanefndar sem stýrir fundum, einn aðili frá veitu- og framkvæmdarsviði sveitarfélagsins, einn frá fjölskyldusviði sveitarfélagsins, einn frá Árskóla, tveir frá ungmennafélaginu Tindastóli og einn frá UMSS.

Fulltrúar Vinstri grænna og óháðra sátu hjá við afgreiðsluna og gerðu athugasemd við skipan í starfshópinn, telur að höfða þurfi til breiðari hóps, eins og segir í fundargerðinni.

Ómar Bragi Stefánsson formaður Knattspyrnudeildar Tindastóls segir að um ánægjulegt skref sé að ræða í áralangri baráttu fyrir bættri aðstöðu, þegar Feyki leitaði viðbragða frá honum við gerð fréttarinnar.

„Vonandi verður góð samstaða um framhaldið, það skiptir miklu máli þegar um svona stórt verkefni er um að ræða. Það er börnum og unglingum á svæðinu til heilla að klára málið alla leið,“ sagði Ómar Bragi.

Fleiri fréttir