Stefanía á átta hesta

Vinirnir Klettur og Stefanía. AÐSEND MYND
Vinirnir Klettur og Stefanía. AÐSEND MYND

ÉG OG GÆLUDÝRIÐ - Stefanía Sigfúsdóttir, Sauðárkróki

Ef það er eitthvert dýr sem Skagafjörður getur státað af þá er það hesturinn en um þessar slóðir má finna fjöldann allan af flottum ræktendum sem eru að gera góða hluti með íslenska hestinn bæði í keppnum og í ræktun og sölu erlendis. Þar sem ég er nokkuð viss um að margir lesendur Feykis viti meira um hesta en ég ákvað ég að leita uppi nokkrar staðreyndir um hesta sem hugsanlega einhverjir hafa ekki hugmynd um að væri rétt.

- Vissir þú að hestar fæðast tannlausir, fá folaldatennur á fyrstu mánuðunum en missa þær 5–6 vetra og fá fullorðinstennur líkt og mennirnir.

- Hestar, ásamt fílum, sofa einna styst af spendýrum eða um 3-4 klst á sólarhring.

- Elsti hestur sem vitað er um er hann Old Billy sem bjó í Englandi og varð 62 ára gamall!

- Hestar hafa tvo blinda bletti, annar er beint fyrir aftan þá og hinn beint fyrir framan þá.

- Hestar eyða meiri orku þegar þeir liggja heldur en þegar þeir standa.

- Hestar geta ekki gubbað.

- Hestar geta ekki andað gegnum munninn.

Stefanía Sigfúsdóttir sem býr á Sauðárkróki og er dóttir Rögnu Hjartardóttur og Sigfúsar Snorrasonar á nokkra hesta og hefur verið mikið í kringum þá frá því að hún var lítil. Feyki langaði til að forvitnast aðeins um Stefaníu og hestana hennar.

 

 

Hér er Klettur tveggja vetra en Stefanía ellefu ára.

Hvernig gæludýr áttu? Ég á nokkra hesta og þeir heita Klettur, Bikar, Framtíð, Ljómi, Silfurtoppur og Mummi og svo eru folöldin mín Steinöld og Sólketill.

Hvernig eignaðist þú hestana? Ég hef umgengist hesta síðan ég var lítil með afa en eignaðist minn fyrsta hest, hann Klett, þegar ég átti tíu ára afmæli og stórvinur minn Guðmundur Sveinsson færði mér hann í tilefni af fyrsta tugnum.

Hvað er skemmtilegast við gæludýrið þitt? Mikill vinur og það er svakalega margt skemmtilegt en toppurinn er að fara í reiðtúr í góðum félagsskap í góðu veðri!

Hvað er erfiðast? Það er erfiðast þegar þeir slasast og ekki er hægt að fara í reiðtúra á þeim lengur.

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af gæludýrinu? Ég ætlaði að fara í skemmtireiðtúr með tveimur vinkonum einn góðan dag í sveitinni og þurftum við að labba og sækja hestana út á tún, þá fengum við þá hugmynd, til að stytta okkur labbitúrinn til baka í réttina, að hoppa á berbak og ríða til baka en þá tóku hestarnir gleðihopp með okkur og við hrundum allar af hestunum!

Feykir þakkar Stefaníu kærlega fyrir að svara spurningunum í Ég og gæludýrið...

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir