Stefnt að uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð

Varmahlíðarskóli. Mynd af skagafjordur.is.
Varmahlíðarskóli. Mynd af skagafjordur.is.

Á fundi sveitastjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 13. nóvember sl. var samþykkt viljayfirlýsing þar sem sveitarfélögin Skagafjörður og Akrahreppur samþykkja að stefna að uppbyggingu skólamannvirkja fyrir leik-, grunn- og tónlistarskóla á einum stað í núverandi húsnæði Varmahlíðarskóla. Áður hafði hreppsnefnd Akrahrepps samþykkt viljayfirlýsinguna fyrir sitt leiti á fundi sínum þann 30. október sl.

Á heimasíðu Svf. Skagafjarðar kemur fram að í samræmi við þann vilja verði unnið að þarfagreiningu og hönnun gagngerra breytinga húsnæðis og lóðar fyrir skólana þrjá á árinu 2020, í nánu samráði við fulltrúa hlutaðeigandi hagsmunahópa úr samfélaginu í framanverðum Skagafirði.

„Markmiðið er að breytingar sem gerðar verða á húsnæðinu og umhverfi þess uppfylli þær þarfir og kröfur sem gerðar eru í dag til skólahalds leik-, grunn- og tónlistarskóla, sem og til fyrirsjáanlegrar framtíðar. Við hönnunina verði eftir því sem unnt er haft að leiðarljósi að ákveðnir þættir starfsemi sem fram fer í húsinu, s.s. bókasafn geti einnig þjónað nærsamfélaginu,“ segir á skagafjordur.is.

Ennfremur kemur fram að leiði niðurstaðan til þess að þessi valkostur verði fýsilegur verði lagt upp með að framkvæmdir hefjist á árinu 2021 en að öðrum kosti verði aðrir möguleikar skoðaðir.

Sameiginleg verkefnisstjórn verður stofnuð á næstunni og mun vinna að framgangi verksins næstu vikur og mánuði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir