Stekkjardalur hlaut umhverfisverðlaun Húnavatnshrepps

Á fjölmennri íbúahátíð Húnavatnshrepps, sem fór fram þann 8. nóvember 2019 voru veitt umhverfisverðlaun Húnavatnshrepps fyrir árið 2019. Á heimasíðu sveitarfélagsins kemur fram að það hafi verið þau Gerður Ragna Garðarsdóttir og Ægir Sigurgeirsson, ábúendur í Stekkjardal, sem hlutu umhverfisverðlaun Húnavatnshrepps fyrir árið 2019.

Stekkjardalur er í fyrrum Svínavatnshreppi, nýbýli byggt á hálfu Stóradalslandi 1961. Býlið er á láglendinu við suðausturenda Svínavatns. Ræktunarland er þar mikið og gott. Beitilandið er tungan milli Stóradals og Litladals og veiðiréttur er í Svínavatni eftir því sem fram kemur á  atomblonduos.fjolnet.is. Þar kemur einnig fram að þótt ættarjörðin Stóridalur hafi verið skert með stofnun þessa nýbýlis sé það athyglisvert að hjónin sem byggðu það eru bæði afkomendur Guðmundar ríka er fyrstur bjó þar þeirra ættmenna. Það mætti því færa rök fyrir því að jörðin sé ættarjörð. Skilarétt upprekstrarfélagsins er í landi jarðarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir