STÓÐRÉTTIR Í VÍÐIDAL

Klukkan hálfníu í morgun lögðu menn af stað til að sækja stóðið úr Gaflinum sem rétta á í Víðidalstungurétt á morgun. Snjór er yfir öllu sem gerir ævintýrið enn þá skemmtilegra.

Um fimmtíu erlendir gestir taka þátt í smöluninni á vegum Íshesta og fá nú að upplifa íslenska hestinn í sínu sérstaka umhverfi. Úm hundrað og fimmtíu manns hafa skráð sig í gúllassúpu og kaffi hjá Jónínu á Kolugili þannig að búast má við fjölda í vélageymslunni á Kolugili þar sem kaffið er drukkið. Víða má svo búast við gleði í kvöld.

Í fyrramálið hefjast réttastörf stundvíslega kl. 10.00 og vel á sjöunda hundrað hrossa verða dregin í dilka. Margt verður á boðstólnum við réttina því boðið verður upp á sölusýningu kl. 13.00 á nýrri braut sem byggð var upp af því tilefni. Uppboð ársins verður haldið þar sem m.a. verður boðið upp merfolald undan Hóf frá Varmalæk og  Kilju frá Steinnesi. Má ætla að það fari vart undir einni milljón. Ingvi Tryggvason frá Hrappsstöðum í Víðidal mun stjórna uppboðinu eins og honum einum er lagið.
Happdrættismiði fylgir veitingum sem keyptar eru af kvenfélaginu Freyju og meðal vinninga eru brúnskjótt hestfolald, reiðtúr með Íshestum og ýmsar hestavörur og aðrir eigulegir munir.

Svo er um að gera í lok dagsins að skella sér á alvöru réttarball í Víðihlíð með hljómsveitinni Sixties.

Dagskrá réttardags er á þessa leið:
 
kl. 10 - stóðið rekið til réttar og réttarstörf hefjast.
kl. 13 - sölusýning á svæði fyrir vestan réttina.
kl. 14.30 Uppboð á völdum hrossum.
kl. 15 Dregið í happdrættinu.
kl. 23-03.00 Stóðréttardansleikur í Víðihlíð. leikur fyrir dansi.

Fleiri fréttir