Stólarnir á flökti í 3. deildinni

Það gekk betur í fyrri leik sumarsins gegn Elliða en hann vannst 3-1 eftir snöggt hat-trick frá Luke Rae. MYND: ÓAB
Það gekk betur í fyrri leik sumarsins gegn Elliða en hann vannst 3-1 eftir snöggt hat-trick frá Luke Rae. MYND: ÓAB

Stólastrákar mættu ferskir á Fylkisvöll í gærkvöldi en Árbæingarnir í liði Elliða reyndust sterkari og uppskáru 3-1 sigur. Í síðustu fimm leikjum hafa Stólarnir tapað tvisvar, gert tvö jafntefli og unnið einn leik og má því segja að hálfgert flökt sé á liðinu, eini stöðugleikinn er óstöðugleikinn. Lið Tindastóls er í miklum og jöfnum pakka um miðja deild þegar flest liðin eiga eftir að spila fjóra til fimm leiki.

Heimamenn komust yfir eftir 14 mínútur með marki frá Patryk Hryniewicki. Konni jafnaði metin á 41. mínútu, setti boltann í hornið eftir góðan undirbúning Luke, og því jafnt í hléi. Tvö mörk snemma í síðari hálfleik gerðu út um leikinn. Fyrst skoraði Pétur Óskarsson á 52. mínútu og Óðinn Arnarson gerði þriðja markið á 61. mínútu. Luke Rae fékk besta færi Stólanna í síðari hálfleik en setti boltann í stöngina.

Lið Tindastóls fann ekki taktinn í gærkvöldi og sigur heimamanna sanngjarn. Atli Dagur varði nokkrum sinnum vel í marki Stólanna í leiknum en hann hefur sannarlega staðið fyrir sínu. Ýmsir óttðust að staða markmanns yrði veiki hlekkur liðsins í sumar en það er síður en svo og Atli oft varið með tilþrifum. Reynslan kemur síðan bara með reynslunni – eða þannig.

Næsti leikur Tindastóls er nú á miðvikdag gegn toppliði KV á KR-vellinum í Reykjavík. Það er þriðji útileikur Tindastóls í röð. Strákarni eiga síðan loks heimaleik laugardaginn 3. október en þá kemur lið Augnabliks í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir