Stólarnir án sigurs eftir fyrri umferðina í 1. deildinni

Leikmenn Tindastóls virtust rúnir sjálfstrausti þegar vængbrotið lið þeirra fékk topplið Leiknis í heimsókn á Sauðárkróksvöll nú í kvöld. Sigur Breiðhyltinga var alltof auðveldur í ausandi rigningu á Króknum en lokatölur urðu 0-5.

Marga sterka pósta vantaði í lið Tindastóls og því verður Bjarki þjálfari að tefla fram reynslulitlum mönnum. Engu að síður fór leikurinn rólega af stað og Tindastólsmenn höfðu í fullu tré við gestina sem voru þó klárlega snarpari, grimmari á boltann og þrátt fyrir ágætar sóknir beggja liða lá í loftinu að gestirnir yrðu fyrri til að skora. Sú varð raunin á 33. mínútu en þá skiluðu leikmenn Tindastóls sér ekki í vörnina eftir fast leikatriði við mark Leiknis og ódýrt mark leit dagsins ljós. Einhverjir leikmanna Stólanna lögðust í jörðina af þessu tilefni líkt og leikurinn væri tapaður og svo sannarlega misstu strákarnir hausinn í framhaldinu því mínútu síðar gerðu þeir sig seka um herfileg mistök og Sindri Björnsson bætti við öðru marki sínu. Á 40 mínútu komst síðan Hilmar Árni Halldórsson á auðan sjó inn fyrir vörn Stólanna og renndi boltanum framhjá hinum síunga Gísla Sveins í marki Tindastóls. Síðasta stundarfjórðunginn hefðu gestirnir hæglega geta skorað fleiri en þrjú mörk en staðan 0-3 í hálfleik.

Það stytti loks upp í hálfleik, í það minnsta rigninguna, því ekki leið langur tími þar til fjórða mark gestanna leit dagsins ljós. Þá átti Figura afleitt innkast til móts við vítateig Stólanna, Leiknismenn fengu boltann og Kristján Páll Jónsson skoraði með föstu skoti frá vítateislínu án þess að nokkur stigi út í hann. Þegar líða tók á síðari hálfleik komust Stólarnir betur inn í leikinn, kannski vegna þess að gestirnir tóku fótinn aðeins af bensíninu. Þeir bættu þó við marki á 83. mínútu, Halldór skoraði þá annað mark sitt í leiknum og enn eftir klúður í vörn Tindastóls. Á lokamínútunum voru Tindastólsmenn óheppnir að skora ekki en þeir náðu nokkrum ágætum skotum en Leiknismenn komust fyrir skotin og vörðu meðal annars á línu. Lokatölur 0-5.

Tindastólsmenn gerðu sig seka um allt of mörg mistök í kvöld. Hlutir eins og að koma á móti boltanum, hjálparvörn, hlaupa til baka þegar bolti tapast, bjóða sig o.s.fr. voru of oft að klikka. Sumir voru að svekkja sig með því að liggja í jörðinni ef ýtt var við þeim í staðinn fyrir að stökkva á fætur og berjast við að ná boltanum aftur. Ekki það að Leiknisliðið er klárlega sterkara en þessir hlutir þurfa að vera í betra lagi ef árangur á að nást.

Nú er fyrri umferð 1. deildar búin og uppskera Tindastóls er rýr. Þrjú stig eftir 11 leiki en tvisvar hefur sigurstaða klúðrast í uppbótartíma þannig að heppnin hefur ekki fylgt liðinu. Það er ljóst að margt þarf að gerast til að liðið nái að halda sér uppi í 1. deild en það er óþarfi að leggja árar í bát – nú þarf að bíta á alla jaxla sem finnast og berjast fyrir hverju stigi.  Áfram Tindastóll!

Fleiri fréttir