Stólarnir í öðru sæti eftir hörkuleik við Hauka

Pétur fær óblíðar móttökur hjá vörn Hauka. MYND: HJALTI ÁRNA
Pétur fær óblíðar móttökur hjá vörn Hauka. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls og Hauka mættust í kvöld í Síkinu í 7. umferð Dominos-deildarinnar. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn og mátti reikna með miklum baráttuleik eins og jafnan þegar Hafnfirðingar mæta í Síkið. Sú varð enda raunin og var leikurinn fjörugur og hart tekist á. Heimamenn náðu þó snemma yfirhöndinni og þrátt fyrir nokkur áhlaup Haukanna þá dugði það ekki til að koma Stólunum úr jafnvægi og fór svo að lokum að lið Tindastóls sigraði með 12 stiga mun. Lokatölur 89-77.

Það var risinn Jasmin Perkovic sem var sjóðheitur í liði Tindastóls í byrjun leiks og var kominn með tíu stig eftir rétt rúmar fimm mínútur og þar af voru tveir silkimjúkir þristar. Þá var staðan orðin 19-9 fyrir Tindastól en mestur varð munurinn 14 stig í fyrsta leikhluta, 25-11, en Haukarnir eru með gott og vel skipað lið og þeir gerðu sex síðustu stig leikhlutans. Þá var mættur á parketið Gunnar Ingi Harðarson fyrir Hauka og hann var sprækur og skoraði grimmt í byrjun annars leikhluta. Hann minnkaði muninn í 32-30 með þristi en Pétur svaraði að bragði og Hannes sökti einum þristi til skömmu síðar. Munurinn á liðunum fram að hléi var yfirleitt 3-6 stig og þristur frá Pétri rétt áður en annar leikhluti kláraðist sá til þess að Stólarnir voru yfir, 49-43, í hálfleik.

Haukarnir höfðu verið harðir í horn að taka í fyrri hálfleik og tvisvar fékk Pétur kröftuga byltu en lét hvergi bilbug á sér finna. Þriðju byltuna fékk hann um miðjan þriðja leikhluta, var þá nýlega búinn að negla fjórða þristinum sínum. Nú loks sáu dómarar leiksins aumur á honum og dæmdu villu og vítunum skilaði hann niður áður en Baldur kippti honum á bekkinn til kælingar. Þegar þarna var komið höfðu Stólarnir spýtt í lófana og voru yfir 60-48 og voru heimamenn með 10-15 stiga forystu það sem eftir lifði af leikhlutanum.

Stólarnir héldu Haukum frá sér

Staðan var 70-56 þegar fjórði leikhluti hófst og Stólarnir héldu haus fyrstu mínútur leikhlutans. Kári Jóns er hins vegar í liði Hauka og það kviknaði á honum á þessum tímapunkti, hann setti niður víti og tvo þrista á skömmum tíma og munurinn kominn niður í sex stig. Þá var ekki annað í stöðunni en að senda Viðar á hann og það gekk ágætlega. Bilic stakk sér inn að körfu Hauka og lagði í og Pétur gerði körfu skömmu síðar og Stólarnir náðu aftur tíu stiga forystu og þegar Simmons loks setti niður þrist, staðan 80-67 og fimm mínútur til leiksloka, þá virtust flest sund lokuð gestunum. Þeir náðu að minnka muninn niður í átta stig þegar tvær mínútur voru eftir en ógnuðu í raun aldrei forystu Tindastóls. 

Góður sigur því staðreynd hjá Stólunum og liðið situr nú í öðru sæti Dominos-deildarinnar með tíu stig að loknum sjö leikjum. Pétur var bestur í liði Tindastóls í kvöld, fór vel með skotin sín og gerði 21 stig. Hann tók að auki sex fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Sinisa Bilic var seigur með 19 stig og náði nokkrum sinnum að smjúga í gegnum vörn Hauka og leggja boltann laglega í körfuna. Perkovic átti stórfínan leik, gerði 18 stig og tók 12 fráköst. Í liði Hauka var Flenard Whitfield feykisterkur en hann gerði 24 stig og hirti 16 fráköst. Kári Jónsson kom sterkur inn í lokakaflann og hann gerði 15 stig í leiknum, Gunnar Ingi var góður í fyrri hálfleik og skilaði þá ellefu stigum og lét þar við sitja.

Næsti leikur Tindastóls er gegn liði Fjölnis í Grafarvogi 21. október kl. 19:15.

Tölfræði á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir