Stólarnir lögðu Blika í VÍS bikarnum

Tindastólsmenn mættu liði Breiðabliks í Smáranum í dag í VÍS bikarnum. Heimamenn voru aðeins einu sinni yfir í leiknum og það var um miðjan fyrsta leikhluta en síðan leiddu gestirnir allt til loka leiksins. Blikarnir gerðu þó góða atlögu að forystu Stólanna undir lok leiks, minnkuðu muninn í þrjú stig þegar mínúta lifði leiks en Stólarnir áttu lokaorðin og unnu leikinn 81-89 og eru því í pottinum góða í VÍS bikarnum.

Stólarnir byrjuðu ágætlega en heimamenn fylgdu í kjölfarið. Þeir komust yfir, 13-12, þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður en síðan ekki söguna meir. Stólarnir leiddu 18-24 þegar annar leikhluti hófst og voru snöggir að koma muninum upp fyrir tíu stigin og þegar tvær mínútur var í hálfleik var munurinn orðinn 17 stig, staðan 32-49. Blikarnir gerðu síðustu fjögur stig hálfleiksins og staðan því 36-49 þegar flautan gall.

Um miðjan þriðja leikhluta kom karfa frá Lawson Stólunum átján stigum yfir, 42-60, en Blikarnir áttu góðan leikkafla í kjölfarið og minnkuðu muninn í sex stig en Lawson setti niður eitt víti í lok leikhlutans og staðan 59-66. Heimamenn minnkuðu muninn í fimm stig í byrjun fjórða leikhluta en körfur frá Geks, Tóta og Drungilas breikkuðu bilið í tólf stig og munurinn hélst 9-12 stig næstu mínútur. Blikar fóru að færast nær á síðustu þremur mínútunum og minnkuðu muninn í þrjú stig með tveimur þristum frá Richardson og Zorani okkar Vrkic. Tóti svaraði með þristi fyrir Tindastól þegar 36 sekúndur voru eftir og tvö skot Blika geiguðu það sem eftir lifði leiks og Callum Lawson gulltryggði sigurinn á síðustu sekúndunum af vítalínunni.

Lawson var góður í liði Tindastóls með 29 stig og sjö fráköst en Drungilas og Geks voru með 20 stig hvor en Geks var annan leikinn í röð með sex þrista í tíu skotum.

Tölfræði leiks >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir