Stólarnir með góðan sigur á Snæfelli í Powerade-bikarnum
Tindastólsmenn gerðu sér lítið fyrir og skelltu liði Snæfells í Stykkishólmi í gær í 8 liða úrslitum Powerade-bikarkeppninnar. Stólarnir náðu yfirhöndinni undir lok fyrsta leikhluta og héldu forystunni nokkuð örugglega allt til leiksloka. Lokatölur voru 70-83.
Sigurður Þorvaldsson hóf leikinn af krafti fyrir heimamenn og var atkvæðamestur Snæfellinga í leiknum, gerði 28 stig og dundaði sér talsvert á vítalínunni. Snæfell fór betur af stað en Ingvi og Pétur fóru fyrir Stólunum undir lok leikhlutans og staðan 15-19. Stólarnir héldu uppteknum hætti í byrjun annars leikhluta og Snæfell skoraði ekki eitt einasta stig í um 9 mínútur. Ekki að Stólarnir væru á einhverju flugi í sóknarleiknum en á þessum kafla breyttist staðan úr 15-12 í 15-27. Heimamenn vöknuðu þó aftur til lífsins og minnkuðu muninn í 30-36 fyrir hlé.
Í þriðja leikhluta var munurinn oftast á bilinu 8-10 stig en undir lok leikhlutans náðu Stólarnir góðum kafla og breyttu stöðunni úr 47-54 í 47-61 og munurinn því 14 stig fyrir lokaátökin. Mestur varð munurinn 18 stig snemma í fjórða leikhluta en þá spýtti Sigurður Þorvalds í lófana og gerði 11 stig á tveimur og hálfri mínútu og munurinn kominn í átta stig. Stólarnir stóðust þó áhlaup heimamanna sem minnkuðu muninn mest í sex stig en sóknir þeirra urðu ansi örvæntingarfullar þegar leið að lokum leiksins og Stólarnir juku muninn.
Dempsey var atkvæðamestur hjá Tindastóli með 23 stig og 11 fráköst en Lewis var skammt undan með 21 stig. Þá var Ingvi Rafn góður með 12 stig og 6 fráköst. Hittni heimamanna innan teigs var slök en þeir settu niður 13 körfur úr 41 tilraun en Stólarnir 26 í 55 tilraunum. Snæfellingar hittu betur utan 3ja stiga línunnar en vítahittnin var sú sama þó heimamenn fengju heldur fleiri vítaskot í leiknum. Þá reyndust Tindastólsmenn sterkari undir körfunni og tóku 49 fráköst á móti 41 Snæfellinga.
Stig Tindastóls: Dempsey 23, Lewis 21, Ingvi 12, Flake 6/9 frk., Helgi Rafn 6/6 frk., Pétur 4/5 frk./5 sts., Finnbogi 3, Sigurður 3, Hannes 2, Viðar 2 og Svavar 1. Helgi Margeirs því eini leikmaðurinn sem sleppti því að skora fyrir Stólana.