Stólarnir tóku völdin í fjórða leikhluta

Lið Tindastóls og Þórs frá Þorlákshöfn mættust í Síkinu í gærkvöldi í 9. umferð Dominos-deildarinnar. Liðin háðu mikið og dramatískt stríð í úrslitakeppninni í vor þar sem Þórsarar slógu Stólana úr leik og mátti því búast við heljarins hanaslag í gærkvöldi. Leikurinn varð hins vegar hálf undarlegur, varnarleikur liðanna í öndvegi en sóknarleikurinn mistækur. Tindastólsmenn hristu þó af sér sliðruorðið í fjórða leikhluta, náðu 19-3 kafla í stigalitlum leik og unnu góðan sigur. Lokatölur 72-67.

Heimamenn fóru ansi vel af stað í gær, spiluðu fínan körfubolta og Bilic og Simmons voru sjóðheitir. Tindastóll komst í 15-7 eftir tæpar sex mínútur en tveir þristar frá Dino og Davíð minnkuðu bilið umtalsvert en þristur frá Axel Kára sá til þess að fimm stigum munaði eftir fyrsta leikhluta, staðan 19-14. Lið Tindastóls átti í raun skilið að hafa mun meiri forystu, sérstaklega höfðu Simmons og Brodnik farið illa með góð færi og það var líkast því að einhver hefði sett lok á körfuna í hvert sinn sem Brodnik komst í færi í fyrri hálfleik. Hann átti eftir að bæta úr því. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta, Stólarnir komust í 31-23 en þá náðu gestirnir 9-0 kafla og komust yfir þegar tvær mínútur voru til hálfleiks. Stólarnir hrukku þá loks í gírinn og Brodnik kom Stólunum yfir, 37-36, með laglegri troðslu. Dino setti þá niður þriðja þristinn sinn fyrir Þór en Pétur átti lokaorðið í fyrri hálfleik, sótti að körfu Þórs og lagði boltann frábærlega í körfuna yfir rúmlega tveggja metra langan Bakovic. Allt jafnt í hálfleik og staðan 39-39.

Brodnik var með sex stig í fyrri hálfleik, troðslu og fjögur víti, en hann hóf leik með körfu í síðari hálfleik. Annar kappi sem hafði haft sig lítt í frammi, Halldór Garðar í liði Þórs, svaraði með þristi og þessir tveir fóru mikinn í síðari hálfleik. Lið Tindastóls kom hins vegar marflatt til leiks í þriðja leikhluta og hvorki gekk ná rak í sókninni. Hvað eftir annað völdu menn vitlausar sendingar eða töpuðu boltanum klúðurslega. Varnarleikurinn var þó í ágætu lagi þó svo að það virtist vanta þennan fítonskraft sem einkennir oft leik Stólanna. Þórsurum gekk heldur skár að koma boltanum í körfu Tindastóls og þeir voru sex stigum yfir, 44-50, þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af þriðja. Bilic stal boltanum og tróð með miklum tilþrifum en Halldór svaraði hinum megin. Það var síðan Pétur sem setti niður þriðja þrist Tindastóls í leiknum og minnkaði muninn í eitt stig, 51-52, þegar um 40 sekúndur voru eftir af leikhlutanum en Helgi Rafn fékk svo dæmda á sig óíþróttamannslega villu, Halldór setti niður tvö víti og á lokasekúndinni lagði Bakovic boltann í körfu Tindastóls og Þórsarar því fimm stigum yfir fyrir lokafjórðunginn. Staðan 51-56.

Brodnik virtist orðinn þreyttur á þessu basli gegn sínum gömlu félögum úr Þorlákshöfn og tók leikinn yfir í fjórða leikhluta. Hann gerði 14 af 19 stigum Tindastóls þegar heimamenn náðu 19-3 kafla. Pétur setti niður hin fimm stigin og spilaði sömuleiðis frábærlega á þessum kafla og vörn Tindastóls steig upp. Engu að síður fengu Þórsarar góð færi utan þriggja stiga línunnar til að svara þessum kafla Tindastóls en miðið klikkaði og Stólarnir náðu ellefu stiga forystu, 70-59, þegar þrjár mínútur voru eftir. Þá hægðu þeir á leiknum og Þórsarar fengu ekki færi á að jafna þó þeir næðu smá áhlaupi síðustu mínútuna. 

Jaka Brodnik virtist varla geta keypt sér körfu í fyrri hálfleik en í þeim síðari, og þá sérstaklega í lokafjórðungnum, var hann á eldi og endaði stigahæstur í Síkinu með 24 stig og sex fráköst. Pétur lenti í villuveseni snemma leiks en hann endaði með 16 stig og fimm fráköst. Sinisa Bilic fór vel af stað en hann þurfti á stundum að leita ansi langt eftir skotinu sínu og það var ekki að detta með honum. Hann gerði 16 stig í leiknum og átti sjö fráköst. Simmons fór vel af stað stigalega en gerði ekki stig í síðari hálfleik en var vinnusamur sem fyrr. Helgi Rafn, Axel og Viðar skiluðu sömuleiðis góðri vinnu. Í liði Þórs endaði Halldór Garðar stigahæstur með 17 stig, Dino Butorac setti þrjá þrista í fyrri hálfleik en Stólarnir lokuðu á sinn gamla félaga í síðari hálfleik. Jafnræði var með liðunum í frákastabaráttunni en liðin voru ekki í stuði utan 3ja stiga línunnar. Aðeins sjö leikmenn Þórs stigu dansinn í Síkinu í gær á meðan níu heimamenn fengu mínútur og munaði kannski um ferskari lappir í lokin.

Niðurstaðan því góður sigur Tindastóls í sérkennilegum leik og það sem skipti mestu máli; tvö stig til Tindastóls sem situr nú á toppi deildarinnar fyrir leiki kvöldins í það minnsta. Næstkomandi fimmtudag spila Stólarnir bikarleik í Síkinu og eru mótherjarnir lið Álftaness sem leikur í 1. deildinni. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir