Stóri plokkdagurinn á morgun

Á Degi umhverfisins, sem haldinn er hátíðlegur á Íslandi þann 25. apríl ár hvert, hafa helstu plokkarar landsins boðað til allsherjar plokks um allt land.  Sveitarfélagið Skagafjörður vill vera með hvetur alla til þess að tína rusl í sínu nærumhverfi. „Skemmtileg afþreying fyrir fólk á öllum aldri og kjörið tækifæri til þess að sameina útiveru og hreyfingu,“ segir á heimasíðu sveitarfélagsins.

Nánast öll sveitarfélög landsins taka þátt með einum eða öðrum hætti og er hægt að nálgast upplýsingar á heimasíðum þeirra og samfélagsmiðlum. Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar sveitarfélagsins, segir að hér sé kjörið tækifæri til að fegra í kringum sig enda mikið rusl að koma undan sjónum sem hopar hratt í blíðunni. Hér er smá þjófstart á ferðinni því umhverfisdagurinn sem haldinn hefur verið í Skagafirði heldur sér og verður í maí en dagsetning, dagskrá og áherslur verða kynntar síðar.

Á Facebooksíðunni Plokk á Íslandi kemur fram að plokkað verði til stuðnings heilbrigðisstarfsfólki með þakklæti og virðingu en það er einmitt sá félagsskapur sem blæs til Stóra plokkdagsins á morgun. Þetta mun vera þriðja árið sem hópurinn skipuleggur slíkt umhverfisátak undir sínum merkjum en vegna samkomubanns og óvissutíma var hópurinn á báðum áttum hvort réttlætanlegt væri að boða til hátíðarinnar þetta árið. En eftir samráð og leiðbeiningar frá Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá embætti ríkislögreglustjóra, var ákveðið að láta slag standa.

„Í ár vilja plokkarar landsins beina plokktöngum sínum að heilbrigðisstofnunum landsins, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og dvalar- og hjúkrunarheimilum, og sýna þannig þakklæti sitt í verki, enda hefur starfsfólk og stjórnendur þessara heilbrigðisstofnanna verið undir miklu álagi svo vikum skiptir. Svavar Hávarðsson, einn af öflugustu plokkurum landsins, bar þessa hugmynd upp innan hópsins og var henni afar vel tekið. Hugmyndin er táknræn. Það er ekki svo að í kringum heilbrigðisstofnanir landsins sé rusl að finna í meiri mæli en annars staðar, en með því að taka þátt í plokki í kringum heilbrigðisstofnanir getum við,  fólkið í landinu, látið þakklæti okkar í ljós með þessum táknræna hætti,“ segir í færslu hópsins.

Almennt um Stóra plokkdaginn
Stóri plokkdagurinn verður haldin á Degi umhverfisins 25. apríl næstkomandi og er það von skipuleggjenda að sem flest sveitarfélög hvetji íbúa sína til þátttöku og auðveldi hann með hverskyns aðkomu og aðstoð.

Að plokka gefur fólki tækifæri til að sameina útiveru og hreyfingu sem og að sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki. Það er tilvalið í samkomubanni þar sem auðvelt er að virða tveggja metra regluna. Að plokka fegrar umhverfi okkar og náttúru en víða er mikið af plasti og öðru rusli eftir stormasaman vetur.

PLOKKTRIXIN Í BÓKINNI
1. Finna sér svæði til að plokka á og hvetja fjölskylduna til að taka þátt.
2. Stofna viðburð eða tengja sig inn á stofnaðan viðburð.
3. Útvega sér ruslapoka, hanska og plokktöng.
4. Klæða sig eftir aðstæðum.
5. Virða samkomubannið og gæta að tveggja metra reglunni.
6. Koma afrakstrinum á viðeigandi stofnun.
7. Hringja eða senda tölvupóst á sveitarfélagið sitt og láta sækja ef magnið er mikið.
8. Gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti vera, en tilkynna til foreldra eða umsjónarmanna svo mögulegt sé að fjarlægja þá.

Plokktímabilið 2020 er formlega hafið. Samkomubann er alveg upplagt til að taka á því í plokkinu.

Fleiri fréttir