Stúlkurnar máttu þola tap í Grafarvoginum
Kvennalið Tindastóls spilaði um síðustu helgi við lið Fjölnis í Grafarvoginum í 1. deild kvenna í körfunni. Eftir erfiða byrjun náðu stelpurnar að krafsa sig inn í leikinn en það voru hinsvegar heimastúlkur sem voru sterkari á endasprettinum og unnu að lokum 16 stiga sigur, 70-54.
Jóna María gerði fyrstu körfu leiksins og kom Stólunum yfir í eina skiptið í leiknum. Það liðu rúmar sjö mínútur þangað til Bríet Lilja gerði næstu körfu Tindastóls en þá var staðan 12-5 og hún var 14-5 að loknum fyrsta leikhluta. Tikeyiah Ann Johnson hrökk í gang í öðrum leikhluta og eyddi þá talsverðum tíma á vítalínunni. Smá saman saxaðist á forskotið og þegar þrjár og hálfmínúta var til leikhlés var staðan 24-21. Fjölnisstúlkur gerðu síðustu fimm stig leikhlutans og staðan 29-21 í hálfleik.
Framan af þriðja leikhluta var munurinn á liðunum yfirleitt 10-12 stig en um miðjan leikhlutann setti Bríet Lilja niður þrist og staðan 41-38. Allt var í járnum til loka leikhlutans en þá var staðan 48-43 fyrir Fjölni. Tikeyiah minnkaði muninn í þrjú stig í upphafi fjórða leikhluta en síðan gerðu Tindastólsstúlkurnar ekki eitt einasta stig í fimm mínútur. Þegar Tikeyiah gerði næst körfu var staðan 58-47 og það reyndist heimastúlkum ekki erfitt að landa sigrinum úr því sem komið var.
Tikeyiah Ann Johnson gerði 29 stig fyrir Tindastól og tók 10 fráköst. Hún gerði 14 stig úr vítum. Bríet Lilja var með 10 stig en gekk illa með skotin sín. Linda Þórdís tók 14 fráköst í leiknum.
Stelpurnar spila gegn KFÍ á Ísafirði nú á laugardaginn og í Njarðvík sunnudaginn 8. febrúar. Það verður síðan loks heimaleikur við lið FSu/Hrunamenn sunnudaginn 15. febrúar kl. 12:00.
Stig Tindastóls: Johnson 29, Bríet Lilja 10, Þóranna Ósk 7, Linda Þórdís 4, Jóna María 2 og Sunna 2.