Stúlkurnar úr Grindavík sterkar í Síkinu

Marín Lind gerði 15 stig í dag, öll í síðari hálfleik. MYND: GG
Marín Lind gerði 15 stig í dag, öll í síðari hálfleik. MYND: GG

Lið Tindastóls og Grindavíkur mættust í dag í 1. deild kvenna og var spilað í Síkinu. Leikurinn var jafn framan af en gestirnir reyndust sterkari aðilinn og unnu að lokum sannfærandi sigur, 69-84, þrátt fyrir að Stólastúlkur, með Tess Williams í sérflokki, ættu nokkur áhlaup í leiknum þar sem þær komust í seilingarfjarlægð frá gestunum.

Lið Tindastóls byrjaði leikinn vel á meðan að lítið gekk hjá liði Grindavíkur. Heimastúlkur komust í 10-2 eftir fimm mínútna leik. Hanna Cook og Natalia Jónsdóttir kom Grindvíkingum inn í leikinn og gestirnir leiddu, 16-17, að loknum fyrsta leikhluta. Í byrjun annars leikhluta datt Ólöf Rún Óladóttir í stuð hjá Grindvíkingum og átti stórleik, gerði m.a. sjö þrista í 13 tilraunum. Grindvíkingar náðu ellefu stiga forystu áður en annar leikhluti var hálfnaður, þær spiluðu hörkuvörn á þessum kafla og það háði liði Tindastóls að það var nær eingöngu Tess sem gat skorað. Heimastúlkur náðu upp góðri baráttu síðustu mínútur leikhlutans og Tess sá um að naga niður forskot gestanna og í hálfleik var staðan 31-35.

Marín Lind Ágústsdóttir skoraði fyrstu stig sín í leiknum í byrjun þriðja leikhluta og hún og Tess minnkuðu muninn í eitt stig. Staðan 37-38 en þá gerðu Grindvíkingar næstu ellefu stig. Stólastúlkur svöruðu fyrir sig, Marín Lind setti niður þrist og Tess bætti við tveimur þristum og nú munaði þremur stigum. Grindvíkingar náðu þá góðum kafla og að loknum þriðja leikhluta var staðan 50-58. Lið Tindastóls átti nú á brattann að sækja og munurinn yfirleitt 8-12 stig en í hvert sinn sem Stólastúlkur náðu að koma muninum í 7-8 stig svaraði Ólöf Rún með þristi og fór svo á endanum að gestirnir fögnuðu góðum sigri.

Tölfræði á vef KKÍ >

Tess Williams gerði 36 stig í dag fyrir lið Tindastóls og þar af 15 af vítalínunni. Hún spilaði allar mínúturnar 40 og virkaði ansi þreytt í lokafjórðungnum og skal engan undra. Marín Lind var sú eina sem eitthvað kvað að í sóknarleik Tindastóls fyrir utan Tess en Marín gerði 15 stig í síðari hálfleik. Aðrar stúlkur gerðu ekki meira en fjögur stig. Í liði Grindavíkur voru Ólöf Rún og Hannah Cook í sérflokki en gestirnir voru einfaldlega betra liðið í dag, búa yfir mun meiri breidd og kunna leikinn einfaldlega betur en lið Tindastóls sem er reynslulítið. Lið Tindastóls átti sjö stoðsendingar í leiknum en gestirnir 21 sem gefur til kynna að lið Grindavíkur hafi látið boltann ganga vel og skapað opin færi.

Næsti leikur stúlknanna er gegn toppliði Fjölnis hér heima og fer leikurinn fram mánudaginn 18. febrúar og hefst kl. 19:15.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir