Stunda íþróttirnar utan dyra - Eldri borgarar á Hvammstanga bregðast við fjöldatakmörkunum í ræktinni

Stella Guðbjörnsdóttir lét ekki Covid reglur stoppa íþróttakennslu eldri borgara á Hvammstanga svo hún flutti æfingarnar bara út undir bert loft. Aðsendar myndir.
Stella Guðbjörnsdóttir lét ekki Covid reglur stoppa íþróttakennslu eldri borgara á Hvammstanga svo hún flutti æfingarnar bara út undir bert loft. Aðsendar myndir.

Eins og allflestir finna fyrir á þessum Covid-tímum er að flestar, ef ekki allar, samkomur af hvers kyns tagi eru háðar fjöldatakmörkunum og jafnvel bannaðar með öllu. Kemur þetta misvel, eða illa, niður á fólki og misjafnt hvernig brugðist er við. Á Hvammstanga tóku eldri borgarar á það ráð að stunda sínar íþróttir úti á svölum meðan þjálfarinn leiðbeinir þeim á gangstéttinni fyrir utan. 

Það er Stella Guðbjörnsdóttir sem leiðbeinir eldri borgurunum í leikfiminni og sér líka um handavinnuna hjá þeim tvisvar í viku. „Þau gera bara það sem þau vilja og ég hjálpa þeim við það,“ segir Stella um handavinnuna sem þarf að kunna ýmislegt í sínu starfi. „Ég er líka svo heppin að þau kenna mér ýmislegt og margt er rætt í þessum tímum. Ég hef sagt að ég er svo lánsöm að vera í þessu starfi og fá að umgangast þennan aldurshóp þau eru dásamleg.“ Stella býr á Hvammstanga og hefur búið að mestu en hún er fædd og alin upp á Svalbarði á Vatnsnesi en alls voru systkinin ellefu talsins. Foreldrar hennar heita Guðbjörn Breiðfjörð, sem nú er látinn, og Sigurlaug Helga Árnadóttir. Hún segist alltaf hafa þótt gaman að hjálpa fólki, stunda handavinnu og hreyfa sig.

Allir saman nú, 1,2 og 3. Guðrún Árnadóttir Borgþór Sigurjónsson og Gunnlaugur Valdimarsson taka léttar æfingar.

 Allir saman nú, 1,2 og 3. Guðrún Árnadóttir Borgþór Sigurjónsson og Gunnlaugur Valdimarsson taka léttar æfingar.

„Það var haustið 1994 sem Eyjólfur Eyjólfsson kom til mín og bað mig að hugsa það hvort ég væri til í að sjá um íþróttir fyrir aldraða en ég mátti samt ekki hugsa málið því það yrði námskeið fyrir leiðbenendur eftir tvo daga sem ég ætti að fara á.  Ég hafði ekki brjóst í mér til að segja nei við mannin og fór því á námskeiðið og tók að mér íþróttastarfið og hef aldrei séð eftir því. Ég er búin að vera leiðbeinandi með íþróttir síðan,“ segir Stella sem kennir leikfimi einu sinni í viku í Nestúni en þar eru íbúðir eldri borgara og salur fyrir félagsstarf. „Svo er vatnsleikfimi einu sinni í viku. En á þessum Covid tímum höfum við ekki alltaf mátt vera inni svo við förum bara út á svalir eða út fyrir dyr þar sem ég stend á gangstéttinni fyrir ofan Nestún og leiðbeini þeim. Þetta finnst þeim alveg meiriháttar skemmtilegt. Við gerum líka smá grín í leiðinni. Ég óttast stundum að það geti orðið bílslys þegar við erum úti. En það er bara gaman að fólk sjái eldri borgara koma út og hreyfa sig.“

Elinborg Ólafsdóttir, Jóhanna Þórarinsdóttir, Haukur Árnasón og Hildur Guðmundsdóttir létu sig ekki vanta á útiæfingu Stellu.

Elinborg Ólafsdóttir, Jóhanna Þórarinsdóttir, Haukur Árnasón og Hildur Guðmundsdóttir létu sig ekki vanta á útiæfingu Stellu.

Nú hafa margir kvartað yfir því að hafa ekki komist í ræktina, ertu með einhver skilaboð til þeirra?
„Já við heyrum fólk alltof oft kvarta yfir því að mega ekki fara í líkamsræktarstöðvarnar og gera æfingar. Við höfum talað um það að yngra fólkið eigi ekki að kvarta þetta heldur hugsa út fyrir kassann og fara út og hreyfa sig, það ýmislegt hægt að gera úti,“ útskýrir Stella. Hún segir þetta áskorun fyrir alla að takast á við og nú í haust hafa veðurguðirnir verið þeim hliðhollir.

Áður birst í 44. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir