Svar við bréfi Helgu er minnisstæð

Stefanía Anna Garðarsdóttir. Aðsend mynd,
Stefanía Anna Garðarsdóttir. Aðsend mynd,

Stefanía Anna Garðarsdóttir svaraði spurningum Bók-haldsins í Feyki í 5. tölublaði ársins 20019. Hún er starfsmaður Stéttarfélagsins Samstöðu á Blönduósi, er alæta á bækur að eigin sögn og er fastagestur á Héraðsbókasafni A- Húnvetninga á Blönduósi. Undanfarið hefur hún verið nokkuð upptekin af lestri spennu- og glæpasagna þó vissulega grípi hún alltaf í annars konar bókmenntir.

Hvers konar bækur lestu helst?

Ég hef alltaf átt gott með að gleyma mér yfir góðri bók. Það má segja að ég sé nánast alæta á bækur, spennu og glæpasögur hafa verið dálítið fyrirferðarmiklar að undanförnu enda framboðið gott, bæði íslenskar og norrænar. Einnig finnst mér bækurnar hennar Ann Cleeves skemmtilegar. Eftir nokkrar þannig er gott að breyta til og taka eitthvað í öðrum dúr, ég hef gaman af fjölskyldusögum og nefni sem dæmi bækurnar um fjölskylduna á Neshov eftir norska höfundinn Önnu B. Ragde. Bækurnar eftir Jenny Colgan um bakaríið við Strandgötu hafa veitt mér ánægju. Ég les líka ævisögur, ferðasögur og léttmeti inn á milli. Barnabækur les ég þegar barnabörnin heiðra mig með nærveru sinni og las síðast Ljóðpundarann eftir Þórarinn Eldjárn, myndskreytta af Sigrúnu Eldjárn.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?

Ég man ég átti bók sem heitir Kibba kiðlingur, Dísu ljósálf las ég með tárin í augunum. Bækurnar um Fimm fræknu eftir Enid Blyton voru mjög spennandi. Síðan las ég flest það sem í boði var.

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?

Ég get ekki nefnt eina uppáhaldsbók en bókin Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson er mér minnisstæð.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur og hvers vegna?

Ég á mér ekki einn uppáhaldsrithöfund en les alltaf bækurnar eftir Arnald Indriðason. Varðandi barnabækur vil ég nefna Guðrúnu Helgadóttur svo er Guðrún frá Lundi í sérflokki, en hér mætti vissulega nefna fleiri.

Hvaða bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?

Það eru alltaf nokkrar bækur á náttborðinu hjá mér. Nú eru þar Flateyjargátan eftir Viktor Arnar Ingófsson, Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur, Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson, Dóttir gæfunnar eftir Isabel Allende og ég er nýbúin að lesa Lifandilífslækur eftur Bergsvein Birgisson. Þar leynist einnig gömul bók um svæðanudd sem er búin að vera þar lengi.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð?

Allar bókabúðir eru góðar, ég nefni Eymundsson á Akureyri.

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?

Það eru nokkuð margar bækur til á mínu heimili, þrátt fyrir að við töpuðum slatta í vatnstjóni fyrir nokkrum árum þá skipta þær einhverjum hundruðum. Ég eignast svona 6 - 8 bækur á ári, ég er í bókaklúbbi og svo kaupi ég eina og eina, sumar gef ég svo eða reyni að láta þær ganga áfram.  Ég gef alltaf fleiri bækur í jólagjöf heldur en ég fæ. 

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?

Ég eignaðist vísnabók sem heitir En hvað það var skrýtið eftir Stefán Jónsson þegar ég var barn sem var og er mikið uppáhald, hún var upphaflega gefin út 1949 og endurútgefin 2000. Ég var svo heppin að rekast á eintak af endurútgáfunni fyrir nokkrum árum, það verður að segjast að mín gamla var orðin ansi snjáð, á hana samt enn.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?

Það færi svo algjörlega eftir því hverjum ég væri að gefa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir