Sveit GSS sigraði í 4. deild karla

Golfklúbbur Sauðárkróks (GSS) sigraði í Sveitakeppni GSÍ á Kálfatjarnarvelli á Vatnsleysuströnd í 4. deild karla síðastliðinn sunnudag og munu því leika í 3. deild á næsta ári. Sveitina skipuðu þeir Arnar Geir Hjartarson, Brynjar Örn Guðmundsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hlynur Freyr Einarsson, Ingvi Þór Óskarsson og Jóhann Örn Bjarkason.

Samkvæmt vef Golfklúbbs Sauðárkróks sigraði karlasveit GSS fyrstu leiki sína á föstudeginum gegn Þorlákshöfn. Seinni leikurinn var svo gegn heimamönnum á Vatnleysuströnd þar sem Elvar Ingi og Ingvi Þór spiluðu fjórmenning og töpuðu 2/0. Arnar Geir og Jóhann Örn spiluðu tvímenning og Arnar Geir sigraði 4/3 en Jóhann Örn tapaði 1/0.

Á laugardeginum sigraði sveit GSS fyrri leikina gegn Mostru frá Stykkishólmi og þá var síðari leikurinn því gegn Golfklúbbi Bakkakots sem sigraði í A-riðli. Þetta var úrslitaleikur um hvort þessara liða myndi leika í 3. deild að ári og sigraði sveit GSS eftir hörkuviðureign.

Á sunnudeginum spilaði sveit GSS um 1. sætið í deildinni og léku þeir þá aftur gegn heimamönnum á Vatnleysuströnd. Karlasveit GSS sigraði nokkuð örugglega í öllum leikjunum og sigruðu í 4. deild og munu leika í 3. deild á næsta ári.

 

Fleiri fréttir