Sveitarstjórnarkosningar eru í dag - kjördeildir á Norðurlandi vestra

Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi fara fram í dag og eru kjörstaðir almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22 að kvöldi en þó geta kjörstjórnir ákveðið að byrja síðar og hætta fyrr. Búast má við fyrstu tölum í stærstu sveitarfélögunum rétt eftir að kjörstöðum verður lokað í kvöld, eða upp úr klukkan 22.

Í Skagafirði eru fjórir listar í framboði; Listi Framsóknarflokks– listabókstafur B, Listi Sjálfstæðisflokks – listabókstafur D, Listi Skagafjarðarlistans – listabókstafur K og Listi Skagafjarðarlistans – listabókstafur K.

Í Húnavatnshreppi eru tveir listar í framboði; A-Listi framtíðar og E-listinn Nýtt afl.

Í Blönduósbær eru tveir listar í framboði; L-listinn og J-listi umbótasinnaðra Blönduósinga.

Á Skagaströnd eru tveir listar í framboði; Ð-listinn Við öll og Skagastrandarlistinn H-listinn.

Í Húnaþingi vestra eru tveir listar í framboði; N-listinn Nýtt afl í Húnaþingi vestra og B-listi Framsóknar og annarra framfarasinna í Húnaþingi vestra.

Óhlutbundnar kosningar eru í Akrahreppi í Skagafirði og Skagabyggð í Austur-Húnavatnssýslu. Um er að ræða persónukjör sem þýðir að allir kjósendur í sveitarfélaginu eru í kjöri nema þeir sem eru löglega undanþegnir skyldu til að taka kjöri, þ.e. kjörgengir, heilir og hraustir og yngri en 65 ára og þeir sem fyrir fram hafa skorast undan því með tilkynningu til yfirkjörstjórnar.

Kjördeildir á Norðurlandi vestra

  • Kjörfundur í Akrahreppi
    • Kjörfundur í Akrahreppi hófst kl. 12 í Héðinsminni og samkvæmt auglýsingu í Sjónhorninu liggur kjörskrá frammi hjá oddvita en þar er kosning óhlutbundin, eins og fram kom hér að ofan.
  • Skipan í kjördeildir í Sveitarfélaginu Skagafirði
    • Kjördeild í Félagsheimilinu Skagaseli,
      • þar kjósa íbúar fyrrum Skefilstaðahrepps – kjörfundur hófst kl. 12:00
    • Kjördeild í Bóknámshúsi FNV,
      • þar kjósa íbúar Sauðárkróks og fyrrum Skarðs- og Rípurhrepps– kjörfundur hófst kl. 09:00-
    • Kjördeild í Félagsheimilinu Árgarði,
      • þar kjósa íbúar fyrrum Lýtingsstaðahrepps – kjörfundur hófst kl. 12:00
    • Kjördeild í Grunnskólanum að Hólum,
      • þar kjósa íbúar fyrrum Hóla- og Viðvíkurhrepps – kjörfundur hófst kl. 10:00
    • Kjördeild í Félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi,
      • þar kjósa íbúar fyrrum Hofshrepps – kjörfundur hófst kl. 10:00
    • Kjördeild í Grunnskólanum á Sólgörðum,
      • þar kjósa íbúar fyrrum Fljótahrepps – kjörfundur hófst kl 12:00
    • Kjördeild í Varmahlíðarskóla,
      • þar kjósa íbúar fyrrum Staðar – og Seyluhrepps -kjörfundur hófst kl. 10:00
    • Kjördeild í Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki,
      • kjörfundur hófst kl. 13:00.

Kjörfundi má slíta 8 klst. eftir að kjörfundur hefst, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram, og hvenær sem er ef allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði.

Kjörfundi má einnig slíta fimm klukkustundum eftir opnun ef öll kjörstjórnin er sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi skal slitið eigi síðar en kl. 22:00. Yfirkjörstjórn er með aðstöðu í Bóknámshúsi FNV.

  • Kjörfundur í Húnavatnshreppi
    • Kjörstaður  í Húnavatnshreppi verður á Húnavöllum. Hófst kjörfundur kl. 11:00  og stefnt er að því að honum ljúki kl. 19:00. Talning atkvæða fer fram á kjörstað og hefst að loknum kjörfundi.
  • Kjörfundur í Blönduósbæ
    • Kjörfundur vegna sveitarstjórnarkosninga í Blönduósbæ (þéttbýli og dreifbýli) verður í Grunnskólanum á Blönduósi, nýrri hluta. Kjörfundur stendur frá kl. 10:00 - 22:00.Talning atkvæða fer fram á kjörstað og hefst að loknum kjörfundi.
  • Kjörfundur í Skagabyggð
    • Kjörfundur hófst í Skagabúð kl. 12:00 og er stefnt að því að kjörfundi ljúki kl. 17:00. Eins og fram kom hér að ofan er kosning óhlutbundin og liggur kjörskrá frammi hjá oddvita að Höfnum.
  • Kjörfundur á Skagaströnd
    • Kjörfundur í Sveitarfélaginu Skagaströnd verður í Höfðaskóla á Skagaströnd. Kjörfundur hófst kl. 10:00 og lýkur kl. 22:00. Talning atkvæða hefst um kl. 22:45, á kjörstað.
  • Kjörfundur í Húnaþingi vestra
    • Kjörfundur til sveitarstjórnarkosninga í Húnaþingi vestra er haldinn í Félagsheimili Hvammstanga frá kl. 09:00-22:00.

Fleiri fréttir