Syngdu mig heim
Þann 28. mars sl. voru 100 ár liðin frá fæðingu skáldsins þjóðkunna Jóns frá Ljárskógum. Í tilefni þess verða haldnir tónleikar í Félagsheimilinu Hvammstanga föstudaginn 29. ágúst kl. 20:30. Að tónleikunum stendur einvala lið íslenskra tónlistarmanna sem flytur mörg þekktustu söngljóð skáldsins, þar á meðal nokkur lög sem M.A.-kvartettinn gerði fræg og heyrast nú í upprunalegri útsetningu þeirra í fyrsta skipti í 70 ár.
Boðið verður upp á afar fjölbreytta dagskrá, allt frá íslenskum dægurlögum og sígildum söngperlum til amerískra sveitasöngva og ítalskra söngljóða. Atriðin eru af ýmsum toga, einsöngur, dúett, kvartett og kór, en meðal flytjenda má nefna nýstofnaðan söngkvartett í anda M.A.-kvartettsins..
Jón frá Ljárskógum var líklega vinsælasti tónlistarmaður landsins á sinni tíð. Strax um tvítugt söng hann sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar ásamt félögum sínum í M.A.-kvartettinum sem telja má fyrstu dægurstjörnur Íslands. Svo rækilega sló kvartettinn í gegn að fá hliðstæð dæmi er að finna í íslenskri tónlistarsögu. Jón var þar jafnan fremstur í flokki, bæði þeirra aðalsmerki og höfuðskáld. Söngljóð þau sem hann gerði fyrir kvartettinn og aðra söngvara urðu snemma á allra vörum. Söngtextar á borð við „Blærinn í laufi“, „Húmar að kveldi“, „Ó, Súsanna“ og „Sestu
hérna hjá mér ástin mín“ slógu strax í gegn og hafa lifað með þjóðinni æ síðan.
Ljóð Jóns þóttu bæði þíð og einlæg og hann markaði sér frá upphafi stöðu sem lýrískt skáld sem flutti mönnum vor, birtu og bjartsýni. Hann lést aðeins 31 árs úr berklum en þrátt fyrir stutta ævi liggja eftir hann tvær frumortar ljóðabækur og veglegt söngtextahefti. Þá hefur söngur hans og M.A.-kvartettsins ómað reglulega í útvarpinu síðustu 70 árin á þeim fáu upptökum sem varðveist hafa.
Tónleikarnir, sem fyrst voru fluttir í Vídalínskirkju sl, vor, eru einstakur viðburður sem ekki hefði getað átt sér stað nema vegna mikillar rannsóknarvinnu sem liggur að baki þeim og eru liður í viðamikilli sagnfræðirannsókn á sögu M.A.-kvartettsins og dægurtónlistarsögu Íslands á millistríðsárunum. Á tónleikunum gefst áheyrendum því einstakt tækifæri til að upplifa þá miklu sönggleði og sönggrósku sem ríkti á Íslandi á árunum fyrir seinna stríð og segja má að hafi kristallast í persónu Jóns frá Ljárskógum, einnar stærstu stjörnu þess tíma.
Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 2000 og í fréttatilkynningu er vakin athygli á því að ekki er posi á staðnum.