Tæpar 300 þúsund krónur til styrktar Björgunarfélaginu Blöndu

Skömmu fyrir jól var haldinn kökubasar á Blönduósi til styrktar Björgunarfélaginu Blöndu en sem kunnugt er hefur mikið mætt á félagsmönnum undanfarnar vikur. Það var Snjólaug María Jónsdóttir sem stóð að basarnum ásamt sveitungum sínum og lögðu fjölmargir sitt af mörkum. Á Þorláksmessu afhenti Snjólaug María afraksturinn, 268 þúsund krónur, til Hjálmars Björns Guðmundssonar, formanns Björgunarfélagsins Blöndu.
„Við erum í skýjunum yfir þeim styrk og hlýhug sem okkur berst þessa dagana. Við þökkum öllum sem komu að þessu og þá Snjólaugu sérstaklega fyrir hugmyndina og að hrinda þessu í framkvæmd. Stuðningur ykkar allra er ómetanlegur,“ segir á Facebooksíðu Björgunarfélagsins Blöndu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.