Takmark Alexöndru náðist á Karolina Fund
Óperusöngkonan Alexandra Chernyshova situr ekki auðum höndum frekar en fyrri daginn, en hún hefur undanfarið sýnt óperuuppfærslu á sögu sem mamma hennar samdi „Ævintýrið um norðurljósin“. Kom hún m.a. á Sæluviku Skagfirðinga með verkið sem sýnt var í Miðgarði.
Fyrir tveimur vikum hófst söfnun hjá Karolina fund fyrir útgáfu bókarinnar Ævintýrið um norðurljósin. Bókin er ætluð börnum frá 5 - 11 ára og með fylgir hljómdiskur og teiknimyndir sem hægt er lita og klippa. Takmarkið var að safna 2000 evrum og náðist það áður en tímatakmarkið rann út sl.sunnudag.
Þá fékk Alexandra styrk í gær frá Nótnasjóði STEF vegna nótnabókar um ævintýrið. Markmið Nótnasjóðs er að styrkja útgáfu íslenskra tónverka, þ.e. tónlistar með eða án texta, á nótum og á stafrænu formi.