Tap hjá Stólastúlkum í síðasta heimaleik sumarsins
Í sunnudagsblíðunni í gær þá fengu Tindastólsstúlkurnar eitt af toppliðum 1. deildarinnar, HK/Víking, í heimsókn. Gengi Tindastóls hefur ekki verið gott í síðustu leikjum og hver leikurinn af öðrum tapast og það varð engin breyting á því í gær þrátt fyrir ágæta frammistöðu. Lokatölur voru 0-2 fyrir gestina.
Markalaust var í fyrri hálfleik en á 63. mínútu kom Ísafold Þórhallsdóttir liði HK/Víkings yfir og Karólína Jack gulltryggði síðan sigurinn með marki á 90. mínútu.
Tímabilið hjá stelpunum hefur valdið talsverðum vonbrigðum en liðið hefur sýnt í fjölmörgum leikjum að það býr meira í því en stigataflan segir til um en lið Tindastóls er neðst í 1. deildinni með átta stig eftir 17 leiki og er fallið í 2. deild. Stelpurnar hafa, þegar ein umferð er eftir, unnið tvo leiki (gegn ÍR og ÍA sem eru um miðja deild), gert tvö jafntefli (gegn HK/Víkingi og Þrótti sem eru í toppbaráttunni) en tapað 13 leikjum.
Flestir þessara leikja töpuðust með litlum mun og lið Tindastóls náði oft ágætum leik gegn sterkari liðum deildarinnar. Það var hins vegar grátlegt að allir leikirnir gegn liðunum í næstu sætum fyrir ofan Tindastól (Víkingi Ólafsvík, Hömrunum Akureyri og Sindra Hornafirði) töpuðust og þar með möguleikinn á að halda sér í 1. deildinni. Lið Tindastóls virtist vera komið á rétta braut um mitt sumar en missti þá Ólínu fyrirliða og Evu Banton og náði ekki að finna taktinn eftir það.