Tap í Kórnum í gærkvöldi

Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli mætti liði HK í Kórnum í gærkvöldi. Stólarnir virtust ætla að byrja leikinn af krafti en það fjaraði fljótt undan í fyrri hálfleik.

Fyrrum Tindastólsmaðurinn Árni Arnarsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir HK með skalla eftir hornspyrnu á 28. mínútu. Hann skoraði svo annað mark stuttu seinna en var dæmdur rangstæður.

HK var mun betra í fyrri hálfleik og komst í 2-0 þegar Viktor Unnar Illugason fór illa með vörn Tindastóls og skoraði með skoti í stöngina og inn.

Stólarnir gerðu breytingar á liðinu í hálfleik og komu sterkari til leiks í seinni hálfleik og sóttu hart að HK mönnum. Á 60. mínútu minnkaði Jose Figura muninn með góðu skoti rétt fyrir utan teig í fjærhornið. Stólarnir voru nálægt því að jafna metin seint í leiknum en HK-ingar björguðu á línu. Flottur seinni hálfleikur hjá Tindastólsmönnum en það dugði ekki til og eru þeir enn án sigurs í deildinni. Lokastaða 2-1 fyrir HK.

Tindastóll situr enn í neðsta sæti riðilsins með 3 stig eftir 9 leiki. HK er í 3. sæti með 17 stig eftir 9 leiki.

Næsti leikur hjá Stólunum er föstudaginn 11. júlí, en þá mæta strákarnir liði Grindavíkur á Grindavíkurvelli og hefst leikurinn kl. 19:15.

Fleiri fréttir