Textílbókverkasýningin Spor opnuð í Heimilisiðnaðarsafninu

Valdimar O. Hermannsson, bæjarstjóri Blönduóss, opnaði sýninguna. Mynd: Jóhannes Torfason.
Valdimar O. Hermannsson, bæjarstjóri Blönduóss, opnaði sýninguna. Mynd: Jóhannes Torfason.

Bókverkasýningin SPOR | TRACES var opnuð sl. sunnudag í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi en þar er um samsýningu listamanna frá fimm löndum að ræða. Fyrir verkefninu fer bókverkahópurinn ARKIR, sem telur ellefu íslenskar listakonur, en leiðir þátttakenda í sýningunni lágu saman í gegnum áhuga þeirra á þessu tvennu: bókverki og textíl.

Á heimasíðu listahópsins ARKIR kemur fram að tvær séu þær listgreinar á Íslandi sem rekja megi í langri sögu og hefðum og telja má til höfuðlista þjóðarinnar, bóklist og textíllist, en sjaldgæft er að þessar listgreinar tvinnist saman. Sum verkanna vísa í íslenskar textílhefðir, vefnað, útsaum, jurtalitun og fleira, auk þess að vera innblásin af náttúru Íslands, menningu kvenna og sögu. Listakonurnar nýta sér tækni og aðferðir textíllista við bókverkagerð og sameina þannig myndlist, hönnun og handverk.

Á heimasíðu Heimilisiðnaðarsafnsins kemur fram að sýningin hafi verið sett upp fyrir ári síðan en vegna Covid var ekki hægt að opna hana formlega þá. „Vegna sömu ástæðna drógust gestakomur í safnið verulega saman og varð því að ráði að framlengja sýninguna um eitt ár. Sýningin hefur verið uppfærð, sum verkanna tekin út og önnur ný sett í staðinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir