Það birtir til þegar líður á daginn

Skjáskot af umferðarvef Vegagerðarinnar frá því um kl. 8:30 í morgun.
Skjáskot af umferðarvef Vegagerðarinnar frá því um kl. 8:30 í morgun.

Veður mun alla jafna vera stillt á Norðurlandi vestra nú þegar morgunskíman bíður eftir að riðja janúarmyrkrinu í burtu. Það snjóaði á Króknum um klukkan átta í morgun og má reikna með éljabökkum á svæðinu framan af degi en gert er ráð fyrir að það létti til þegar líður á daginn, dregur jafnvel meira úr vindi og frostið magnast.

Í kvöld gerir Veðurstofan ráð fyrir að frost fari í 13 gráður í nágrenni Sauðárkróks en mesta frostinu er spáð á því svæði og svo á heiðum. Á morgun, miðvikudag, er áfram spáð björtu og stilltu veðri með frosti í kringum tíu gráðurnar en dregur síðan úr frostinu á fimmtudag. Áfram þó spáð stilltu veðri en gæti snjóað af og til.

Snjóþekja er á vegum út að austan í Skagafirði en þar, sem og í Fljótum, er unnið að mokstri. Snjókoma er sem stendur á Þverárfjallsvegi í Langadalnum er éljagangur. Hálka eða hálkublettir eru á öllum öðrum vegum í umdæmi Vegagerðarinnar á Norðurlandi vestra og því rétt að fara að öllu með gát. Aðstæður verða betri eftir því sem vestar dregur.

Fleiri fréttir