„Þegar vel er gert er gott að fá klapp á bakið“

Mynd af síðu H:N frá 1238.
Mynd af síðu H:N frá 1238.

Sýningin 1238 : Baráttan um Ísland, sem er til húsa í Aðalgötunni á Sauðárkróki, hlaut í gær gullverðlaun FÍT (Félags íslenskra teiknara) í flokknum gagnvirk miðlun. Í umsögn dómnefndar segir um sýninguna: „Leikjavæðir söguna og nýtir til þess vel nýja og fjölbreytta tækni, góð lýsing á viðfangsefninu og áhugaverð miðlun á upplýsingum. Góð framsetning og fallega uppsett.“ Hönnuðir sýningarinnar eru Högni Valur Högnason, Júlíus Valdimarsson, Kría Benediktsdóttir, Ragnheiður Sigurðardóttir og H:N Markaðssamskipti.

Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri 1238, segir þetta mikla viðurkenningu fyrir það frábæra fólk H:N markaðssamskipta sem stóð á bak við hönnun og framleiðslu á efni sýningarinnar. Aðspurður um verðlaunin segir Áskell Heiðar: „Þau hafa fyrst og fremst þá þýðingu að þau undirstrika að hér var vandað til verka, frábært fagfólk sem stóð að undirbúningi og uppsetningu sýningarinnar og það var mikið lagt í hana.  Og þegar vel er gert er gott að fá klapp á bakið.“

Er að komast eðlilegur bragur á starfsemina eftir samkomubann? „Já, það er sem betur fer að koma líf í húsið aftur, hér hefur verið mikill straumur af skólahópum undanfarnar vikur og verður áfram í næstu viku, það eru frábærir gestir og líflegir og sem betur fer eru íslenskir ferðamenn aðeins farnir að slæðast inn. Þá hefur orðið mikil aukning í matarsölu hjá okkur, við bættum við okkar góða matseðil og okkar góða starfsfólk í eldhúsinu, réðum okkur landsliðskokk sem verður á vaktinni í sumar og fólk hefur tekið frábærlega í þessar viðbætur.

Hefur eitthvað breyst frá í fyrra? „Við erum alltaf að betrumbæta sýninguna okkar og notuðum m.a. Covid lokunina í endurbætur á húsnæði og myndaaðstöðunni hjá okkur. Áðurnefndar breytingar í eldhúsinu eru þó það stærsta þessa dagana en þeim hefur fylgt lengri opnun á veitingastaðnum sem er nú opinn alla daga fram á kvöld.  Sýningin okkar er opin alla daga frá 10-17 og við vonum að heimafólk verði duglegt að koma til okkar með gesti sína í sumar til að sýna þeim Sturlungasýninguna okkar, prófa sýndarveruleikann og smakka góðan mat,“ segir Áskell Heiðar.

Á Facebook-síðu H:N Markaðssamskipta segir m.a. í frétt í tilefni af viðurkenningunni. „Safnið er hannað frá grunni af H:N, bæði að innan og utan, með aðstoð og útfærslum frá fjölda frábærra samstarfsaðila. Þetta er ekkert venjulegt safn, heldur hátæknilegt söguundur þar sem beitt er allra nýjustu tækni í sýndarveruleika (VR), viðbótarveruleika (AR) og tölvuleikjatöfrabrögðum.“

Hér er hægt að kynna sér sýninguna frábæru, 1238 : Baráttan um Ísland >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir