Þórarinn, Þóra og Kiljan verðlaunuð

Á ráðstefnunni Hrossarækt 2010 sem haldin var á Hótel Sögu s.l. laugardag voru í fyrsta skipti afhent verðlaun, sem Félag hrossabænda gefur, til þess knapa sem sýnt hefur hross í hæsta hæfileikadóm á árinu, án áverka. Verðlaunin hlaut Þórarinn Eymundsson sem sýndi hryssuna Þóru frá Prestsbæ í 8.99 fyrir hæfileika sl. sumar.

Þórarinn er hestamönnum að góðu kunnur, margverðlaunaður og prúður reiðmaður, vel að slíkum verðlaunum kominn. Þóra frá Prestsbæ er sjö vetra, undan Orra frá Þúfu og Þoku frá Hólum, en eigendur hennar og ræktendur eru Inga og Ingar Jensen.

Einnig voru veitt ný verðlaun fyrir hæst dæmda kynbótahross ársins, leiðrétt fyrir aldri. Verðlaunin komu að þessu sinni í hlut stóðhestsins Kiljans frá Steinnesi sem hlaut í aðaleinkunn 8.71 eða 8.78 aldursleiðrétt, en Kiljan er sex vetra gamall.

Kiljan er undan Kletti frá Hvammi og Kylju frá Steinnesi, Kolfinnsdóttur frá Kjarnholtum. Ræktandi Kiljans er Magnús Jósefsson í Steinnesi í Húnaþingi vestra, en eigendur eru Halldór Þorvaldsson á Sjónarhóli í Skagafirði, Elías Árnason og Ingolf Nordal.

Fleiri fréttir