Þórsarar sterkari á endasprettinum
Tindastólsmenn héldu suður í Þorlákshöfn í gær og léku við lið Þórs í Dominos-deildinni í körfubolta. Leikurinn var jafn og spennandi en það voru heimamenn sem náðu ágætu forskoti á lokamínútunum og þrátt fyrir að Stólarnir næðu í skottið á þeim þá höfðu Þórsarar sigur, 97-95.
Jafnræði var með liðunum frá byrjun en heimamenn voru þó yfirleitt með yfirhöndina. Helgi Margeirs kom Stólunum þó yfir, 19-20, með 3ja stiga körfu en Helgi var að hitta vel í leiknum, gerði sex 3ja stiga körfur í 11 tilraunum. Þór var yfir 25-24 að loknum fyrsta leikhluta og liðin skiptust síðan á um að hafa forystuna í öðrum leikhluta. Stólarnir náðu góðum kafla undir lokin, komust í 41-48, en 3ja stiga karfa frá Tómasi Tómassyni lagaði stöðuna fyrir Þór. 44-48 í hálfleik.
Þórsarar náðu 12-2 kafla í upphafi síðari hálfleiks og voru síðan yfir, 64-56, um miðjan leikhlutann. Helgi náði þá að setja tvo þrista í með skömmu millibili og Lewis, sem átti mjög góðan leik, jafnaði 64-64. Staðan fyrir fjórða leikhluta var 72-72 og allt í járnum. Lítið gekk hjá Tindastólsmönnum í byrjun leikhlutans og Þórsarar breyttu stöðunni úr 74-74 í 86-75 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Strákarnir náðu að saxa á forskot heimamanna og þegar 1:15 var eftir jafnaði Lewis leikinn með vítaskotum, 91-91. Vincent Sanford svaraði með 3ja stiga körfu og Stólarnir náðu ekki að brúa bilið það sem eftir lifði leiks.
Tindastóll náði ekki upp almennilegum varnarleik í gærkvöldi og því fór sem fór. Reyndar var munurinn á liðunum svo lítill að hægt er að benda á að munurinn liggi í dapri vítanýtingu Stólanna sem slagaði þó hátt í 70% að þessu sinni. Þá munar um minna þegar Pétur er ekki að finna sig en hann setti aðeins niður eitt af fjórtán skotum sínum í leiknum. Bestur í liði Stólanna var Darrel Lewis en hann gerði 32 stig og tók 14 fráköst. Helgi Margeirs gerði 21 stig og var sjóðheitur þó ekki hefði gengið að bora niður þristi í blálokin. Dempsey var kominn með tvær villur eftir rúmar tvær mínútur og spilaði minna en oft áður en hann gerði 18 stig. Helgi Viggós var með fimm stig í gær og sjö stoðsendingar.
Hjá heimamönnum voru Tómas (24), Grétar Erlendsson (20/9) og Vincent Sanford (20) atkvæðamestir.
Það er skammt stórra högga á milli hjá Stólunum því að á morgun mæta strákarnir Snæfelli í Stykkishólmi í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar og nk. fimmtudag mæta hinir ósigrandi KR-ingar í Síkið. Áfram Tindastóll!
Stig Tindastóls: Lewis 32, Helgi Margeirs 21, Dempsey 18, Flake 8, Svavar 6, Helgi Viggós 5, Ingvi 2, Pétur 2 og Hannes 1.