Þriðja umferð í Rallý

Um næstu helgi mun Bílaklúbbur Skagafjarðar standa fyrir þriðju umferð í Íslandsmeistaramótinu í rallý. Klúbburinn sem fagnar 25 ára afmæli sínu með þessu rallý hefur um árabil haldið eina bestu keppni mótsins í nágrenni Sauðárkróks.

Leikar hefjast nk. föstudagskvöld klukkan 18:00 við Skagfirðingabúð og verður ekið um Þverárfjall en það er einstaklega skemmtileg áhorfendaleið þar sem ekið er samhliða þjóðveginum, ýmist vinstra eða hægra megin. Meðan á keppni stendur er þjóðvegurinn lokaður á þeim stað sem ekið er yfir veginn en áhorfendur geta staðsett sig á milli lokana og notið keppninnar þannig enn betur.

Keppninni lýkur síðan á föstudagskvöldið með innanbæjarleið um Sauðárkrókshöfn. Er fólk hvatt til að koma og fylgjast með keppnunum, einfalt er að ganga að Sauðárkrókshöfn eða leggja bílum við Kjarnann og ganga inn á áhorfendasvæðin.

Eftir næturhlé verður haldið upp á Mælifellsdal en þar reynir gríðarlega á bæði bíla og áhafnir þar sem sú leið er 22 km löng. Sú leið verður ekin fram og til baka, hafa ýmsar áhafnir endað keppni á þeim leiðum. Að því loknu verður Vesturdalurinn einnig ekinn fram og til baka. Síðasta leið keppninnar er að venju áhorfendaleiðin um svokallaðar Nafir. Sú leið hefur ávallt verið augnayndi áhorfenda enda innanbæjarleiðin þar sem gestir geta auðveldlega gengið og virt fyrir sér.

Auk þess verður síðari ferðin svokölluð “Gestacoara-leið”. Á slíkri leið fá gestir að spreyta sig sem aðstoðarökumenn. Þrír heppnir vinningshafar af sýningunni “Kraftur” verða meðal þeirra.

Er fólk hvatt til að koma og fylgjast með keppninni en bent á að virða öryggislokanir.

TímOn-félagar mæta galvaskir í þessa keppni að venju. Heimamaðurinn Baldur Haraldsson hefur látið hlúa örlítið að bílnum og ætti hann því að vera eins og best verður á kosið. Bæði Baldur og Borgfirðingurinn Aðalsteinn Símonarson eru vel kunnugir rallýakstri í Skagafirði en þetta er þriðja sumarið sem þeir keppa þar saman.

Eftir sigur í síðustu keppni leiða þeir félagar  Íslandsmeistaramótið með 8 stiga forskot á þá Hilmar B. Þráinsson og Elvar Smára Jónsson. Þeir Baldur og Aðalsteinn hafa því það markmið að ná fullu húsi stiga. En keppnin í Skagafirði reynir ávallt á bæði bíla og áhafnir, þurfa þeir því að sameina hraða og akstursöryggi. Hægt verður að fylgjast með keppninni á síðu bks.is

Alli og Baldur

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir