Þriðja umferð Íslandsmótsins í rallakstri

Gunnar Karl Jóhannesson  og Ísak Guðjónsson á fullri ferð á sérleið. Myndir:Mótorsport myndir/Sveinn Haraldsson
Gunnar Karl Jóhannesson og Ísak Guðjónsson á fullri ferð á sérleið. Myndir:Mótorsport myndir/Sveinn Haraldsson

Það var heldur napurt á laugardagsmorguninn þegar sautján áhafnir mættu til leiks í þriðju keppni Íslandsmótsins í rallakstri. Keppnin fór fram í Skagafirði. Eknar voru fjórar sérleiðir um Mælifellsdal og tvær um Vesturdal. Nánari upplýsingar um áhafnir og sérleiðir má fá á vefsíðu Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur sem annaðist keppnishaldið að þessu sinni:  www.bikr.is

Aðstæður til aksturs voru ágætar, sólarlaust, létt úrkoma annað veifið en hitastigið hefði að skaðlausu mátt vera hærra. Örlítil þoka var með köflum á Mælifellsdal en langt frá því að vera þétt og þrúgandi eins og stundum hefur gerst þar í keppnum fyrri ára.

Strax á fyrstu leið lentu nokkrir keppendur í að sprengja dekk og töfðust við það, einkum Halldór Vilberg og Valgarður, þar sem tjakkurinn gaf sig við dekkjaskiptin og kostaði samtals 52:53 dýrkeyptar mínútur að koma bílnum yfir fyrstu sérleið, þar sem fljótasti bíll var á tímanum 14:34.  Þeir félagar náðu þó að klára keppnina en vonir um verðlaun eða stig fuku út í veður og vind strax á fyrstu leið.

Skafti og Sigurjón Þór lentu einnig í að sprengja og tefjast verulega á fyrstu leið sem og Hjörtur Pálmi og Guðni Freyr en þeir óku eina bílnum sem þátt tók í eindrifsflokki. Eindrifið býður upp á skemmtileg tilþrif og glöddu Hjörtur og Guðni áhorfendur og aðra viðstadda með skemmtilegum töktum og hörkuakstri.

Sigurður Arnar og Svavar lentu í bilunum á fyrstu leið og töfðust við það. Þeirra gengi fór þó vaxandi þegar leið á daginn og áttu þeir afbragðsgóða tíma á Vesturdal, þar af besta tíma af öllum keppendum í seinni ferðinni.

Óhætt er að segja að feðginin Fylkir og Heiða Karen hafi ekið af nákvæmni þennan daginn en þau óku á sléttum 16 mínútum um Mælifellsdal í þremur ferðum af fjórum. Þessi keppni var önnur keppni Heiðu Karenar sem aðstoðarökumanns en hún hefur einnig tekið þátt sem ökumaður í rallýkrossi.

Baldur og Katrín María mættu til leiks eftir þriggja ára hlé, en Baldur lenti í hryggbroti eftir stökk á Mælifellsdal í Skagafjarðarralli 2017.  Ákveðið var fyrir keppnina að aka sæmilega gætilega og komast að því hvort áhöfnin gæti áfram stundað sport af þessum toga. Sérleiðin um Mælifellsdal er tæpir 24 kílómetrar og með því að hægja á um c.a. 2,5 sekúndur á hvern kílómetra er um mínútu lengur verið að aka leiðina. Þessi tilraun skilaði áhöfn og bifreið í mark án áfalla í fjórða sæti í keppninni og þriðja sæti í B flokki. 

Fjórar áhafnir mættu til leiks í AB varahlutaflokknum. Áhugavert hefur verið að fylgjast með Kristjáni og Agli Andra, ungri áhöfn, sem hafa hægt og bítandi verið að bæta tíma sína keppni eftir keppni.

Vikar og Atli Már náðu öðru sæti í AB varahlutaflokknum, þrátt fyrir að hafa velt og útvegað þjónustuliði sínu margvísleg verkefni þann daginn. Óhætt er að segja að þeir séu litríkir keppendur og gleði þeirra yfir því að hafa ekki skemmt glænýjan spoiler í veltunni var fölskvalaus.

Ívar Örn og Einar fóru þó allra manna hraðast af þátttakendum í AB varahlutaflokknum á laugardaginn, á tímum þeirra sést að góður stöðugleiki er í akstrinum sem að gjarnan er talið vita á gott. Þeir félagar leiða nú Íslandsmeistaramótið í AB varahlutaflokknum.

Í jeppaflokki voru þrjár áhafnir.  Frændurnir Helgi og Ásmundur lentu á vandræðum með bílinn en þetta er fyrsta keppni Ásmundar sem aðstoðarökumaður. Með góðri hjálp og úrvals lími úr Kaupfélaginu tókst þeim að halda bensíndælunni við efnið út daginn og klára í öðru sæti í jeppaflokki.

Sigurvegarar í jeppaflokki voru Guðmundur Snorri og Magnús en þeir óku hressilega og leiða nú Íslandsmótið í sínum flokki af miklu öryggi.

Baráttan í Íslandsmótinu er í algleymingi hjá stigahæstu áhöfnum í heildarkeppninni. Fyrir keppnina voru Gunnar Karl og Ísak stigahæstir og vildu eðlilega styrkja stöðu sína fyrir lokaslaginn í mótinu. Næstir til stiga voru Íslandsmeistararnir frá því í fyrra, Baldur Arnar og Heimir Snær. Daníel og Erika náðu ekki að taka þátt í fyrstu keppni ársins en höfðu sigur í þeirri næstu svo þau eru sýnd veiði en ekki gefin þegar kemur að stigasöfnun, enda Daníel margfaldur Íslandsmeistari.

Gunnar Karl og Ísak fóru vel af stað og tóku besta tíma á fyrstu leið, Daníel og Erika 8 sekúndum á eftir og Baldur Arnar og Heimir Snær þar á eftir. Á annari leið um Mælifellsdal snerist dæmið við, Daníel og Erika með besta tíma, Gunnar Karl og Ísak þar á eftir. Á þriðju leið voru Gunnar Karl og Ísak og Daníel og Erika á sama tíma. 

Hart var barist og eftir fjórar krefjandi ferðir um Mælifellsdal leiddu Daníel og Erika með 11 sekúndna forskoti á Gunnar Karl og Ísak en Baldur Arnar og Heimir voru þá 3 mínútum og 8 sekúndum á eftir Daníel og Eriku eftir að hafa spengt á annari ferð um Mælifellsdal.

Í fyrri ferð á Vesturdal fór að bera á vélarbilun hjá Daníel og Eriku sem töpuðu þar af leiðandi miklum tíma í báðum ferðum þar. Tókst þeim naumlega að komast í endamark á Sauðárkróki en niðurstaðan varð þriðja sæti og útkall hjá viðgerðaliðinu fyrir næstu keppni.

Í öðru sæti urðu Baldur Arnar og Heimir Snær. Gunnar Karl og Ísak lönduðu sigri í Sauðárkróksrallinu eftir jafnan og áfallalítinn akstur. Tvær keppnir eru eftir og enn geta orðið sviftingar en staða Gunnars Karls og Ísaks er sterk og hafa þeir afgerandi forskot á aðra keppendur. Mótinu er þó ekki lokið og verður spennandi að fylgjast með baráttu þessara hröðustu áhafna í Íslandsmótinu fram til síðasta dags.

Gunnar Karl Jóhannesson  og Ísak Guðjónsson eru stigahæstir eftir þrjár umferðir.Þrjár áhafnir náðu ekki að ljúka keppni þennan daginn. Nýliðarnir Hinrik og Rúnar Örn í AB varahlutaflokknum urðu að játa sig sigraða eftir útafakstur á annarri sérleið. Gedas og Arturas sem aka í A flokki og hófu að keppa í fyrra óku útaf á þriðju sérleið og skemmdu vatnskassa. Lauk þar með þátttöku þeirra í keppninni. Kári og Gunnar í jeppaflokknum áttu líflegan dag og hófu leik á því að velta á fyrstu leið. Sú bylta varð þó þar sem undirlag var sæmilega mjúkt og veltan varð ekki á mikilli ferð og héldu þeir félagar áfram keppni um sinn. Þeir urðu þó frá að hverfa þegar vélin gaf sig á Vesturdal. Ljóst er að þeirra bíður verkefni í að hjúkra ökutækinu fyrir næstu keppni, að innan og utan.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu í Íslandsmótinu er að finna á vefsíðu Akstursíþróttasambands Íslands: www.akis.is

Næsta keppni, sem jafnframt er sú fjórða í röðinni af fimm í Íslandsmótinu, verður Rallý Reykjavík og fer fram 3. – 5. september nk.

/Fréttatilkynning

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir