Þríhöfði í Síkinu

Það verður þríhöfði í Síkinu í dag og vart þverfótað fyrir Austlendingum á Króknum þar sem þrjú lið Hattar á Egilsstöðum mæta heimamönnum í Tindastóli. Veislan hefst klukkan fjögur í dag og lýkur ekki fyrr en um ellefu leytið í kvöld. Um er að ræða viðureign meistaraflokka liðanna í Subway-deildinni og leiki 9.flokks drengja og ungmennaflokks drengja.

Níundi flokkurinn rennur á vaðið kl. 16:00 en leikurinn í Subway-deildinni hefst kl. 19:15. Unglingaflokksliðin mætast síðan 21:30.

Fólk er að sjálfsögðu hvatt til að mæta eldhresst og í stuði til að hvetja sína pilta. Hamborgarar verða steiktir frá 18:30 og hin rómaða Pavel-sósa að sjálfsögðu í boði. Þá styttist nú í jólin og það er víst fullt af nýju spennandi dóti í Tindastólsbúðinni – hver slær nú hendinni á móti meistaragjöf?

Feykir forvitnaðist um stöðuna á nýjum leikmanni Tindastóls, Calloway, sem ekki var kominn með leikheimild fyrir viku og útlit fyrir eitthvað vesen hjá liði kappans úti í Kósóvó. Formaður körfuknattleiksdeildar vildi ekkert segja til um hvort kappinn væri kominn með leikheimild eður ei. Þetta kemur í ljós í kvöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir