Þröstur og Þórhildur í stjórn Samtaka smáframleiðenda

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, Þröstur Heiðar Erlingsson, Guðný Harðardóttir, Svava Hrönn Guðmundsdóttir og Þórhildur M. Jónsdóttir. Mynd:bbl.is
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, Þröstur Heiðar Erlingsson, Guðný Harðardóttir, Svava Hrönn Guðmundsdóttir og Þórhildur M. Jónsdóttir. Mynd:bbl.is

Stofnfundur Samtaka smáframleiðenda var haldinn á Hótel Sögu í gær. Samtökin hafa það að markmiði að stuðla að öflugra samstarfi og auknum samtakamætti smáframleiðenda matvæla um land allt ásamt því að stuðla að kraftmikilli nýsköpun  og fjölbreyttu úrvali hágæða matvæla, þar sem áhersla er á notkun innlendra hráefna, aukinn fjölbreytileika og verðmætasköpun, þróun nýrra og verðmætari vara og þjónustu úr vannýttum hráefnum, að draga úr kolefnisspori, auka sjálfbærni og fjölga atvinnutækifærum. Frá þessu var greint á vef Bændablaðsins í gær.

Norðurland vestra á tvo fulltrúa í stjórn samtakanna sem kosin var á stofnfundinum, þau Þröst Heiðar Erlingsson frá Birkihlíð kjötvinnslu í Skagafirði og Þórhildi M. Jónsdóttur frá Kokkhúsi og Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd. Formaður samtakanna er Karen Jónsdóttir, eigandi Kaja organic, Matarbúr Kaju og Café Kaja á Akranesi og aðrir í stjórn eru Guðný Harðardóttir, frá Breiðdalsbita og Svava Hrönn Guðmundsdóttir, frá Sælkerasinnepi Svövu.

Til að teljast smáframleiðandi þarf viðkomandi að vera innan marka í tveimur af þremur eftirfarandi atriðum: heildareignir undir 100.000.000 króna, hrein velta undir 100.000.000 króna og meðalfjölda ársverka á fjárhagsárinu 10.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, stýrði fundi en full aðild að Samtökum smáframleiðenda matvæla felur í sér aðild að Samtökum iðnaðarins og í gegnum þau Samtökum atvinnulífsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir