Þróunarsjóður Landsbankans styrkir tvö verkefni á NLV

Nítján verkefni fengu í gær úthlutað samtals 33,5 milljónum króna úr Þróunarsjóði ferðamála. Að honum standa Landsbankinn og atvinnuvegaráðuneytið. Sjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið og markmiðið með starfrækslu hans er að efla starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu utan háannatíma og auka arðsemi þeirra.

Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og barst honum 61 umsókn að þessu sinni.

Þróunarsjóðnum er ætlað að styðja við samstarfsverkefni fyrirtækja á tilteknum svæðum eða afbragðsverkefni stakra fyrirtækja undir sömu formerkjum. Hvatt er til samstarfs skapandi greina við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Sjóðurinn styrkir einkum verkefnisstjórn, greiningarvinnu, undirbúning verkefna, kaup á ráðgjöf og þróun hugmynda en einnig önnur verkefni sem stuðlað geta að lengingu ferðamannatímans. Styrkir sjóðsins geta að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnis.

Í dómnefnd sátu þau Finnur Sveinsson, Davíð Björnsson og Guðný Erla Guðnadóttir frá Landsbankanum, Ólöf Ýrr Atladóttir, Ferðamálastofu, Berglind Hallgrímsdóttir Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ásborg Arnþórsdóttir tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Formaður dómnefndar var Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Landsbankanum.

Yfirlestur og mat umsókna önnuðust verkefnisstjórar frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ferðamálastofu. Eftirfylgni og afgreiðsla styrkja verður í höndum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Að þessu sinni hlutu tvö fyrirtæki á Norðurlandi styrki, og eru þau bæði staðsett á Norðurlandi vestra, Hestasport-Ævintýraferðir og I5-Into the North.

Hestasport – Ævintýraferðir - Í ríki hestsins í Skagafirði - 3.000.000 kr.

Markmiðið er að efla vetrarhestaferðamennsku í Skagafirði. Undir leiðsögn reyndra reiðkennara fá þátttakendur tækifæri til að reyna allar gangtegundir á framúrskarandi hestum á „heimavelli“ yfir vetrartímann.

I5 - Into the North - 2.800.000 kr.

Ferðir allt árið fyrir erlenda ferðamenn um Ísland, með áherslu á svæði sem nær yfir Húnavatnssýslur og Skagafjörð. Saga, menning og matur úr héraði leikur stórt hlutverk í einstakri náttúruupplifun.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir