Tían, Bifhjólaklúbbur Norðuramts, sótti Skagfirðinga heim á sumardeginum fyrsta

Fallinna mótorhjólamanna minnst við listaverkið Fallið sem staðsett er í Varmahlíð og öllum óskað góðs hjólaárs. Mynd: FB Tían Bifhjólaklúbbur Norðuramts.
Fallinna mótorhjólamanna minnst við listaverkið Fallið sem staðsett er í Varmahlíð og öllum óskað góðs hjólaárs. Mynd: FB Tían Bifhjólaklúbbur Norðuramts.

Þó að nokkuð sé liðið frá sumardeginum fyrsta er gaman að segja frá því að Tían, Bifhjólaklúbbur Norðuramts, safnaði saman, þann daginn, virkum hjólurum á Ráðhústorgið á Akureyri og brunuðu yfir 30 mótorhjól út úr bænum og yfir í Skagafjörð og gerði stans í Varmahlíð. Alvöru sumardagur 12-17 stiga hiti og sól.

Á Facebook-síðu Tíunnar kemur fram að upp undir 15 manna mótorhjólahópur frá Smaladrengjum í Skagafirði, ásamt einum sem kom að sunnan, en Smalarnir voru þá í sinni árlegu ferð að Fallinu, listaverki því sem ætlað er að minnast fórnarlamba mótorhjólslysa. Verkið er eftir Heidda, Snigil no. 10, gefið af Sniglum-Bifhjólasamtökum Lýðveldisins, í tilefni 100 ára afmælis mótorhjólsins á Íslandi 2005.

„Allt í einu flaug yfir okkur flugvél í lágflugi og flautaði hún á okkur. Var þar mættur þúsundþjalasmiðurinn og mótorhjólagúrúinn Steini Tótu og lét hann sig ekki vanta heldur, því hann lenti flugvélinni á túninu fyrir neðan Varmahlíð og kom til okkar á rafmagnshlaupahjóli sem hann tók með sér í flygildið,“ segir í færslu Tíunnar.

Eftir samfundinn í Varmahlíð héldu hjólarar hver í sína áttina, sumir brunuðu á Krókinn en aðrir heimsóttu Kvenfélag Lýtingsstaðahrepps sem buðu til kaffisamsætis í tilefni sumarkomunnar í Árgarði við Steinstaði. „Fór nokkuð stór hópur þangað og fengu þvílíkar veitingar upp á gamla mátann, smurbrauðstertur, pönnukökur, kakó og annað bakkelsi, sem var alveg frábært. Eins og áður sagði þá var veðrið alveg frábært, og tvístraðist hópurinn í minni hópa og hjóluðu allir glaðir heim á leið, sumir lengri leiðina Tröllaskagann en aðrir bara heiðin aftur heim. Takk fyrir okkur, vá hvað það var gott að komast á þjóðveginn aftur á hjóli. og takk fyrir okkur Smaladrengir.“

Meðfylgjandi eru myndir frá deginum góða og eru fengnar af Facebook-síðu Tíunnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir