Tillaga að verndarsvæði í byggð á Hofsósi
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á fundi sínum þann 12. desember síðastliðinn að leggja fram tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verndarsvæði í byggð innan þéttbýlisins á Hofsósi. Svæðið sem um ræðir eru bæjarkjarnarnir Plássið og Sandurinn sem afmarkast af Brekkunni að norðan, af brekkubrún Bakkans að austan og sjó og hafnargarði að sunnan og vestan, samtals um 3 ha að stærð.
Á svæðinu er hluti elstu byggðarinnar á Hofsósi og er markmið tillögunnar að vernda þennan mikilvæga bæjarhluta til að framtíðaruppbygging taki mið af þeirri menningarsögulegu arfleifð sem þar er, að því er segir á vef sveitarfélagsins.
Skýrslu með tillögunni og greinargerðinni um verndarsvæðið má nálgast hér ásamt skýrslum um húsakönnun og fornleifaskráningu. Einnig liggja gögnin frammi í ráðhúsi sveitarfélagsins við Skagfirðingabraut 21 á Sauðárkróki.
Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta og aðrir sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri geta lagt fram athugasemdir við tillöguna til föstudagsins 12. apríl 2019. Senda skal skriflegar athugasemdir til skipulags- og byggingarfulltrúa eða á netfangið jobygg@skagafjordur.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.