Tilraunir með heimaslátrun í haust

Frá umdeildri heimaslátrun í Birkihlíð haustið 2018. Mynd: Matís.is.
Frá umdeildri heimaslátrun í Birkihlíð haustið 2018. Mynd: Matís.is.

Hópur áhugafólks um lögleiðingu örsláturhúsa á Íslandi áttu fund með Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðarráðherra, og starfsfólki ráðuneytisins á dögunum þar sem fram kom vilji hins opinbera að koma að tilraunaverkefni heimaslátrunar í haust.

Fram kemur á Facebooksíðunni  Við Styðjum Örsláturhús að fundurinn hafi verið mjög fínn en endanlegt skipulag liggur enn ekki fyrir. „Við höfum lagt áherslu á að sem flestir geti verið með og að ekki séu gerðar stífar kröfur um aðstöðu. Markmiðið er fyrst og fremst að kanna hvort gæði kjötsins séu ásættanleg og nýta reynsluna til að aðlaga regluverk varðandi heimaslátrun þannig að bændur geti selt beint til neytenda og þannig aukið verðmætasköpun sína. Kjöt af lömbum í tilraunaverkefninu verður ekki selt og einungis miðað við að slátra fáum lömbum hjá hverjum bónda, með aðstoð vanra slátrara ef óskað er eftir,“ skrifar Þröstur Erlingsson, bóndi í Birkihlíð í Skagafirði.

Í samtali við Feyki segir Þröstur landbúnaðarráðherrann sjálfan vera áhugasaman um verkefnið og styðji heilshugar. Hann hvetur þá bændur sem vilja taka þátt í verkefninu að hafa samband við sig á netfangið raggalara@gmail.com, Guðnýju í Breiðdalsbita gudnyhardar@gmail.com eða Matthías á Húsavík á Ströndum husavik@simnet.is og láta vita af áhuga. „Við gerum svo ráð fyrir því að láta formlega vita af fyrirkomulagi laust fyrir mánaðarmót og þá geti bændur nýtt fyrstu daga júní til að íhuga frekar hvort þeir vilji taka þátt í tilraunaverkefninu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir