Tindastólsmenn enn án sigurs

Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli mætti liði KV á KR-vellinum í dag. Tindastólsmenn mættu af krafti í leikinn og uppskáru vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem Mark Magee brenndi af en dómarinn dæmdi að spyrnan ætti að vera tekin aftur því varnarmenn KV hlupu of snemma inn í teiginn.

Mark Magee tók spyrnuna aftur og klúðraði í annað sinn. KV komust síðan yfir á 41. mínútu en Fannar Örn Kolbeinsson jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu tveimur mínútum síðar. Það virtist sem liðin færu jöfn inn í hálfleikinn en KV fékk svo aukaspyrnu sem Garðar Ingi Leifsson skoraði úr.

Tindastólsmenn héldu áfram baráttu í seinni hálfleik og uppskáru jöfnunarmark seint í leiknum þegar Fannar Freyr Gíslason hamraði boltann í þaknetið af stuttu færi. Liðin börðust mikið síðustu mínúturnar og leikurinn virtist ætla að enda í jafntefli en boltinn barst síðan inn í teig Tindastólsmanna þar sem Garðar Ingi Leifsson kom fyrstur að boltanum og tók við honum og kláraði örugglega í nærhornið á 94. mínútu. Tindastólsmenn tóku síðan miðju og það virtist vera síðasta spyrna leiksins. Svekkjandi úrslit fyrir Tindastól enda börðust menn allan tímann og greinilegt að menn séu ekki búnir að gefast upp þó illa hafi gengið hingað til.

Tindastóll er enn án sigurs í deildinni og sitja í neðsta sæti riðilsins með 3 stig eftir 13 leiki. KV er í 7. sæti með 17 stig eftir 13 leiki.

Næsti leikur hjá Tindastól er miðvikudaginn 30. júlí, en þá taka strákarnir á móti Haukum á Sauðárkróksvelli og hefst leikurinn kl. 20:00. Fjölmennum á völlin og hvetjum strákana okkar! Áfram Tindastóll!

Fleiri fréttir