Tindastólsmenn fóru örugglega áfram í Powerade-bikarnum

Á laugardag lék mfl. karla hjá Tindastóli við lið ÍG úr Grindavík í fyrstu umferð Powerade-bikarkeppninnar. Leikið var í Grindavík og reyndust heimamenn ekki mikil fyrirstaða. Lokatölur 72-99.

Heimamenn fóru þó betur af stað í leiknum og komust í 8-4 en síðan kom langur kafli þar sem Tindastólsmenn leyfðu ÍG ekki að skora og staðan 8-20 eftir sjö mínútna leik. Helgi Viggós fór mikinn á þessum kafla en staðan að fyrsta leikhluta loknum var 15-25. Í öðrum leikhluta var munurinn jafnan 10-15 stig og staðan í hálfleik 34-48.

Heimamenn börðust vel í þriðja leikhluta og náðu að saxa á forskot Tindastóls. Munurinn var sjö stig þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta en Stólarnir kláruðu sterkt og voru með 16 stiga forystu fyrir fjórða leikhluta. Þar varð munurinn fljótlega 20 stig og óhefðbundnari leikmenn Tindastóls fengu að spreyta sig síðustu mínúturnar.

Öruggur sigur Tindastóls staðreynd eins og vænta mátti en stigahæstur var Myron Dempsey 29 stig og 12 fráköst. Stólarnir tefldu fram nokkuð breyttu liði enda yngri leikmenn að keppa á öðrum vígstöðvum um helgina. Dregið verður í bikarnum núna í hádeginu og segir formaður körfuknattleiksdeildar, Stefán Jónsson, að það sé spenna í loftinu.

Stig Tindastóls: Myron Dempsey 29, Darrel Lewis 16, Helgi Viggós 14, Helgi Margeirs 11, Darrel Flake 10, Páll Bárðar 7, Sigurður Stefáns 4, Ingvi Ingvars 3, Jónas Sigurjóns 3 og Þráinn Gísla 2.

Fleiri fréttir