Tíu sáu sér fært að mæta á opinn íbúafund á Sauðárkróki

Sveitarfélagið Skagafjörðu hefur haldið tvo opna íbúafundi í vikunni og hafa samtals 15 manns talið ástæðu til að mæta og ræða við sveitarstjórnarfulltrúa um rekstur, þjónustu, framkvæmdir og ábyrga fjarmálastefnu sveitarfélagsins en fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 hefur verið í brennidepli. Fyrri fundurinn var haldinn í Varmahlíð sl. mánudagskvöld en sá síðari á Sauðárkróki á miðvikudag.

„Opnu fundirnir hafa gengið vel. Á fundunum er farið yfir hvað íbúar vilja leggja áherslu á í þjónustu, framkvæmdum og rekstri hjá sveitarfélaginu, bæði á næsta ári og einnig út þetta kjörtímabil. Fundirnir hafa skilað fjölmörgum góðum ábendingum og tillögum sem verða í kjölfar fundanna teknir til umfjöllunar og afgreiðslu í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnuna sem nú er í gangi,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri, sem viðurkennir að vissulega mætti fjöldinn vera meiri á fundunum. „En það eru þó bara tveir fundir búnir af alls fimm fundum sem haldnir eru núna. Í fyrra var mætingin á fundina almennt góð og vonandi verður hún það á þeim þremur fundum sem eftir eru.“

Þetta er annað árið sem íbúafundir með þessu sniði eru haldnir í tengslum við fjárhagsáætlun og þykir Sigfúsi tilraunin hafa lukkast vel. „Enda afar gott að fá beint og milliliðalaust samtal við íbúana í þeirri mikilvægu vinnu,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir