Tíundi tapleikur Tindastóls í röð

Tindastóll tók á móti liði Víkings Ólafsvík á laugardaginn í 18. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Ekki hefur margt fallið með Stólunum í sumar og það varð engin breyting á því að þessu sinni því gestirnir fóru heim með stigin þrjú eftir 0-3 sigur sem var næsta auðveldur.

Að þessu sinni var dómarinn varla búinn að flauta leikinn á þegar Víkingar skoruðu en þar var á ferðinni Joseph Spivack. Gestirnir réðu lögum og lofum framan af í leiknum með Eyþór Birgisson í miklu stuði á hægri kantinum en kappinn er eldsnöggur, sterkur og útsjónarsamur. Hann kom boltanum fyrir markið á 10. mínútu á Brynjar Kristmundsson sem skallaði af öryggi í markið. Næstu mínútur á eftir ógnuðu Víkingar stöðugt en þegar á leið hálfleikinn náðu Stólarnir að komast betur inn í leikinn og var Fannar Gísla óheppinn að minnka ekki muninn þegar hann skallaði boltann yfir markvörð gestanna, en einnig naumlega framhjá, í dauðafæri.

Það var fátt um fína drætti í síðari hálfleik. Gestirnir með sigurinn í hendi sér og svo virtist sem Tindastólsmenn hefðu helst í hyggju að verja markið sitt betur en í fyrri hálfleik. Það gerðu þeir reyndar ágætlega en á móti kom að sóknarleikurinn var í algjöru lágmarki og leikurinn í heild lokaðri. Benni átti ágætar rispur fram völlinn en þær enduðu flestar í fangi eða fótum andstæðinganna. Stólarnir náðu reyndar að skora á 77. mínútu en settu boltann í eigið mark eftir snarpa sókn Víkinga. Lokatölur 0-3 og tíundi tapleikur Tindastóls í röð staðreynd.

Lánleysi Stólanna virðist algjört þessa dagana og að þessu sinni var leikurinn nánast tapaður eftir 10 mínútna leik og hlýtur það að vera alveg ömurlegt fyrir leikmenn liðsins að lenda sí og æ í þeirri stöðu. Enn eru menn að meiðast og gengur hægt að fá leikmenn úr meiðslum. Á laugardag voru Fannar Kolbeins og Ben Griffiths ekki með og of mikið mál er að telja upp alla þá sem höfðu meiðst í sumar og hafa enn ekki komist á ferðina. Árni Einar átti fínan leik á miðjunni hjá Stólunum og þó að hraðinn sé ekki sá sami og áður þá hélt hann boltanum vel og dreifði spilinu með einfaldari sendingum en oft áður.

Næsti leikur Tindastóls er gegn Þrótti Reykjavík á Valbjarnarvelli og verður hann spilaður laugardaginn 30. ágúst og hefst kl. 13:00.

Fleiri fréttir