Tjón á tveimur bæjum í Húnaþingi
feykir.is
Skagafjörður, Austur-Húnavatnssýsla, Vestur-Húnavatnssýsla
14.02.2020
kl. 19.38
Húni.is segir frá því að töluvert tjón hafi orðið í óveðri dagsins á tveimur bæjum í Vatnsdal og Víðidal. Í fréttinni segir að Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra hafi í viðtali við Ríkisútvarpið í hádeginu greint frá því að mikið tjón hafi orðið í Vatnsdal þar sem útihús, vélar og íbúðarhús hafi skemmst. Gekk viðbragðsaðilum illa að komast á vettvang vegna veðurs.
Í frétt á RÚV segir að allar rúður á austurhlið hússins hafi sprungið en brotnuðu ekki og að íbúar hússins hafi haldið til á þeim stað í húsinu sem öruggastur þótti. Þá var sagt frá því að stór hluti þaks á fjárhúsi á bæ í Víðidal hafi fokið.