Tvær nýjar hraðhleðslustöðvar á Sauðárkróki
feykir.is
Skagafjörður
16.05.2025
kl. 10.45
Í vikunni voru teknar í notkun tvær nýjar 160kW BYD hraðhleðslustöðvar á Sauðárkróki. Framkvæmdin er hluti af samstarfi Instavolt og Kaupfélags Skagfirðinga. Uppsetning stöðvanna er stórt skref í uppbyggingu hleðsluinnviða á Norðurlandi og markar mikilvæga viðbót við rafbílaþjónustu í Skagafirði.
Stöðvarnar, sem staðsettar eru við verslun Kaupfélags Skagfirðinga, gera notendum kleift að hlaða ökutæki sín hraðar– og greiða á einfaldan hátt með greiðslukorti, í Instavolt-appinu eða með hleðslukorti Instavolt.Með þessari viðbót er Sauðárkrókur orðinn hluti af ört vaxandi hleðsluneti Instavolt á Íslandi. Þetta er ellefta staðsetning félagsins og stefnir það á að opna a.m.k. 10 stöðvar á fimm stöðum í sumar. Fjöldi annarra er í undirbúningi.
Í fréttatilkynningu segir að Instavolt og Kaupfélag Skagfirðinga vinni saman að því að gera sjálfbærar samgöngur aðgengilegri fyrir íbúa, atvinnulífið og ferðamenn, með áherslu á trausta innviði, einfalt notendaviðmót og hraða þjónustu.