Tvær skagfirskar stúlkur verðlaunaðar á Nýsveinahátíð IMFR

Laufey Ósk og Sandra Sif við verðlaunaafhendinguna. Mynd: imfr.is.
Laufey Ósk og Sandra Sif við verðlaunaafhendinguna. Mynd: imfr.is.

Á nýsveinahátíð IMFR sem haldin var sl. laugardag, í Tjarnarsal Ráhúss Reykjavíkur,  fengu tvær skagfirskar stúlkur viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í sínu fagi, framreiðsluiðn.

Alls voru 23 nýsveinum veittar viðurkenningar en að auki fengu 14 þeirra sérstök verðlaun skóla og styrktaraðila tengt áframhaldandi námi þeirra. Laufey Ósk Þórólfsdóttir og Sandra Sif Eiðsdóttir sem báðar eru útskrifaðar í framreiðsluiðn fengu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Þær eiga ekki langt að sækja áhuga sinn á framreiðslu en feður þeirra eru báðir matreiðslumenn. Laufey Ósk er dóttir Guðnýjar Vésteinsdóttur og Þórólfs Sigjónssonar á Hofsstöðum og Sandra Sif er dóttir Þóreyjar Gunnarsdóttur og Eiðs Baldurssonar á Sauðárkróki. Þess má geta að Laufey Ósk var ein þeirra 14 sem hlutu styrki, og fékk hún ferðastyrk frá Iceland Air.

„Íslenskt samfélag þarf á iðnnemum að halda og því erum við að fagna í dag. Það er mikilvægt að hver og einn finni nám sem er áhugavert og spennandi. Það gleður mig því mikið að sjá nemendum sem innritast á ákveðnar verk- og starfsnámsbrautir fjölga. Ég óska heiðursiðnaðarmönnum innilega til hamingju með nafnbótina. Þau eru svo sannarlega vel að því komin.“ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra í tilefni hátíðarinnar.

Sjá nánar HÉR

Fréttin hefur verið uppfærð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir