Tveimur tonnum af rækju stolið

Rækja. Mynd af netinu.
Rækja. Mynd af netinu.

RÚV segir frá því að lögreglan á Norðurlandi vestra rannsaki nú þjófnað en um liðna helgi var tveimur tonnum af rækju stolið frá einni elstu rækjuverksmiðju landsins, Meleyri á Hvammstanga.

Haft er eftir Baldvini Þór Bergþórssyni, verkefnisstjóra rækjuvinnslunnar, að upp hafi komist um þjófnaðinn á laugardagsmorgun en lás hafi verið brotinn á frystigámi og rækjurnar horfnar. Baldvin telur að „götuvirði“ rækjunnar sé um 5 til 6 milljónir. „Þetta er svolítið mikið,“ segir Baldvin í samtali við RÚV.

Ljóst er að þjófarnir hafa þurft að vera vel skipulagðir og vel á sig komnir en rækjunni var pakka í tíu kílóa kassa. Þetta voru því um 200 kassar sem þeir stálu og þurftu að ferja yfir í bíl. „Það verður ekki auðvelt að koma þessu í verð,“ segir Baldvin.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, staðfestir í samtali við fréttastofu að rækjuþjófnaðurinn sé til rannsóknar. Hann segir augljóst að þjófarnir hafi þurft sérstakt ökutæki til að flytja rækjurnar enda komist svona magn ekki fyrir í venjulegum fjölskyldubíl.

Verið sé að fara yfir myndefni úr eftirlitsmyndavélum, ekki bara frá hafnarsvæðinu. Hann bendir á að væntanlega þurfi þjófarnir að koma vörunni í frystigeymslu og biðlar til fólks um að hafa varann á sér ef því býðst að kaupa rækju á vægu verði.

/ÓAB

Fleiri fréttir